Hægt að hefja sókn í samgöngumálum

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég boða það ekki að við munum breyta fjárlögunum. Ég er ekki heldur tilbúinn að taka undir það að við munum breyta þeim tekjustofnum sem eru til vegagerðar. Við getum líka beitt öðrum aðferðum til þess,“ sagði Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis, í umræðum um störf þingsins.

Þar brást hann við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sem spurði Harald út í ummæli sem hann lét falla í Ríkisútvarpinu þess efnis að ríkisstjórnin myndi endurskoða fjárlögin fyrir 2017 og að alltaf hafi verið reiknað með því í fjárlagavinnunni síðasta haust að ný ríkisstjórn myndi á einhvern hátt koma með nýtt fjárlagafrumvarp. Vísaði hún sérstaklega í samgöngumálin og ríkisstjórnarsáttmálann þar sem kæmi fram að efla ætti uppbyggingu samgöngukerfisins.

„Hins vegar er alveg rétt, og ég ætla bara að taka undir og undirstrika það, að þessi ríkisstjórn hefur lagt áherslu á uppbyggingu samgöngukerfis á öllum sviðum. Ég trúi því að þess muni sjást staður í væntanlegri fjármálaáætlun sem kemur inn í þingið á vordögum,“ sagði Haraldur. Enn væri unnið að fjármálastefnu í fjárlaganefnd Alþingis sem byggi til fjárhagsramma ríkisins en ramminn sýndi að hægt væri að hefja sókn í uppbyggingu samgöngumannvirkja.

„Við getum líka farið hraðar fram með því að beita annarri hugsun og annarri nálgun við fjármögnun þeirra en bara að hækka þessa tekjustofna vegna þess að tekjustofnar samgönguframkvæmda snerta til dæmis ekki vaxandi fjölda bifreiða sem nota aðra orkugjafa. Þess vegna verðum við að skoða þá gjaldtöku líka frá grunni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert