„Við erum varla byrjuð“

Fjöldi íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt tölum frá sveitarfélögunum.
Fjöldi íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt tölum frá sveitarfélögunum. Kort/Loftmyndir og mbl.is

Á höfuðborgarsvæðinu eru í dag 3.560 íbúðir skráðar í byggingu samkvæmt tölum frá sveitarfélögum svæðisins. Í Reykjavík er rétt rúmlega helmingur þessara íbúða í byggingu eða í kringum 1.800. 

Næst þar á eftir kemur Kópavogur með 644 íbúðir, þar næst Garðabær með 435 og Hafnarfjörður með 380 íbúðir. Í Mosfellsbæ eru 250 íbúðir í byggingu og á Seltjarnarnesi eru þær 51.

mbl.is óskaði eftir tölum frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu um fjölda þeirra íbúða sem eru í byggingu. Úttektin nær til íbúða á öllum byggingarstigum, það er frá því byggingarleyfi er fengið og þar til lokaskoðun hefur farið fram.

Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar á mannvirkjasviði Samtaka iðnaðarins, segir í samtali við mbl.is að þumalputtareglan varðandi uppbyggingu sé að það taki um tvö ár að byggja íbúðir. Á þéttingarreitum geti það tekið lengri tíma og í öðrum hverfum styttri tíma.

Hann tekur fram að í tölum sem þessum sé einhver fjöldi íbúða sem aðeins sé komið byggingarleyfi fyrir, en ekki byrjað að byggja. Þá séu einnig tilbúnar íbúðir sem búið sé að flytja inn í, en enn eigi eftir að gera lokaúttekt. Í raun séu því íbúðir í byggingu líkast til eitthvað færri en þessi tala segir til um.

Í Kópavogi eru skráðar 644 íbúðir í byggingu.
Í Kópavogi eru skráðar 644 íbúðir í byggingu. Ófeigur Lýðsson

Mun hrökkva skammt

Í vikunni sagði Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, að byggja þyrfti 1.500 til 2.000 íbúðir á ári á höfuðborgarsvæðinu og að þegar sé til staðar uppsafnaður vandi upp á 2.000 til 3.000 íbúðir.

Friðrik segir að miðað við tölur sveitarfélaganna um íbúðir í byggingu sé ljóst að núverandi íbúðir í byggingu muni hrökkva skammt.

„Við erum varla byrjuð, við erum með þessu varla að uppfylla þörfina, hvað þá að saxa á það sem vantar,“ segir hann.

Til viðbótar við þennan fjölda sem nú er á byggingarstigi er einnig nokkur fjöldi lóða sem hafa verið skipulagðar undir íbúðabyggð á aðal- og deiliskipulagi en ekki enn fengið byggingarleyfi. Þannig eru nokkrir reitir í Reykjavík sem byggja á upp og hefur meðal annars ítrekað verið rætt um Vogabyggð í þeim efnum.

Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar hjá Samtökum iðnaðarins.
Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar hjá Samtökum iðnaðarins.

Mikið skipulagt í Mosfellsbæ

Í Hafnarfirði fengust þau svör að 364 íbúðir væru á skipulagi bæjarins sem ekki væri hafist handa við að byggja og í Mosfellsbæ er talsvert af landi sem þegar hefur verið skipulagt undir byggð.

Meðal annars hafa verið gefin út um 350 byggingarleyfi í Helgafellslandi. Aðalskipulagið gerir ráð fyrir um 1.050 nýjum íbúðum þar og eru framkvæmdir hafnar við tæpan fjórðung þeirra, eða um 250.

Auk þess hafa undanfarin misseri þó nokkrar lóðir í Leirvogstungu verið seldar, sem enn eru óbyggðar. Þá er horft til þess að byggja um 1.800 íbúðir í Blikastaðalandi, en viðræður eru enn í gangi við eigendur landsins um framtíðaruppbyggingu þess.

mbl.is