Verða að sjá sér hag í að fljúga norður

Eigi að beina lággjaldaflugfélögum norður eða austur, þarf að gera …
Eigi að beina lággjaldaflugfélögum norður eða austur, þarf að gera flugvellina að hagstæðum kosti fyrir flugfélögin að mati Arnheiðar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri markaðsstofu Norðurlands, fagnar tillögu Grím­s Sæ­mundsen, formanns Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar (SAF), um að lággjalda­flug­fé­lög­um sem aðeins fljúga til Íslands yfir sum­ar­tím­ann verði beint til Ak­ur­eyr­ar og Egilsstaða gegn lægri lend­ing­ar­gjöld­um.

„Okkur líst mjög vel á þessa hugmynd,“ segir Arnheiður, en Grímur lagði tillöguna fram í ræðu sinni á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar á föstudag. „Í fyrsta lagi þá fagna ég því að það sé kominn áhugi hjá forsvarsmönnum SAF að styðja við flugið norður og austur.“

Arnheiður segir lággjaldaflugfélögin aukinheldur hafa þann kost að þau fylli vélar sínar. „Þannig að þetta eru vélarnar sem við höfum verið að eltast við.“  Ákveði lággjaldaflugfélögin að gera Akureyri að áfangastað muni markaðsstofa Norðurlands gera allt sem hennar valdi stendur til að ná upp nauðsynlegri nýtingu í vélarnar. „Það myndi þýða að þeir væru að koma með mjög mikið af ferðamönnum til okkar.“

Ekki vandræði með gistirými

Ekki verði heldur vandamál að hýsa ferðamennina. „Við erum með á bilinu 1-1,5 milljónir vannýttra gistinátta á ári fyrir norðan, þannig að það er yfirdrifið nóg pláss.“ Erfiðast sé um gistingu í tvo mánuði yfir hásumarið, en slíkt myndi einungis kalla á betri dreifinu ferðamanna um svæðið. „Menn myndu mögulega lenda í vandræðum með að fá gistingu á Akureyri og Mývatni, en þeir myndu þá finna sér aðrar leiðir.“

Engin ástæða sé heldur til að takmarka slíkt flug við sumartímann. „Við leggjum líka áherslu á vetrarfríin. Þó að þessi félög séu að fljúga á Keflavík á sumrin er ekkert sem segir að þau geti ekki tekið veturinn hjá okkur af því að við erum með mjög sterkan vetraráfangastað,“ segir Arnheiður.

Ekki verri en aðrir farþegar

„Farþegar lággjaldaflugfélaga eru ekki verri en aðrir farþegar,“ bætir Arnheiður við og kveður rannsóknir hafa sýnt að farþegar sem fljúga með lággjaldaflugfélögunum eyði meiru á áfangastað af því að þeir hafi sparað með miðakaupunum. „Og það er jákvætt fyrir okkur.“

Það verði hins vegar ekki gert eingöngu með reglugerðarbreytingum að beina lággjaldaflugfélögum norður eða austur, heldur verði slíkum áherslubreytingum að fylgja stuðningur og afsláttur. „Það þyrfti að gera þessa tvo flugvelli hagstæðari fyrir þessi félög, sem þýðir að þau myndu velja þá. Um leið fengju félögin skýr skilaboð um að það sé vilji til að byggja upp þessa flugvelli sem áfangastaði og það er mjög jákvætt.“

Arnheiður telur slíkt heldur ekki þurfa að eiga eingöngu við um þau flugfélög sem eru skilgreind sem lággjaldaflugfélög, líkt og verið hefur í umræðunni. „Ég held að við þurfum ekki endilega að hengja okkur í akkúrat þá skilgreiningu,“ segir hún. „Ég held ef að farið verði í aðgerðir til að tryggja að flugfélög leiti frekar út á land með lendingar sé enginn að fara að spyrja hvort það séu skilgreind lággjaldafélög eða önnur flugfélög sem sjái sér hag í því að fljúga á þessa flugvelli.“    

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert