Misvísandi skilaboð ráðamanna

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkuð hefur borið á misvísandi skilaboðum frá fulltrúum ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi að undanförnu í tengslum við lykilmál eins og peningastefnu Íslands og stöðu landsins á alþjóðavettvangi. 

Frétt mbl.is: Óbreytt ástand „óforsvaranlegt“

Þannig lét Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra hafa eftir sér í erlendum fjölmiðlum um helgina, þar á meðal breska viðskiptablaðinu Financial Times, að til skoðunar væri að festa gengi krónunnar við aðra gjaldmiðla. Þá mögulega evruna eða pundið. Sagði hann gengistengingu við evruna það eina rökrétta í stöðunni.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra brást við þessum ummælum Benedikts í viðtali við Bloomberg-fréttaveituna þar sem hann sagði ekki standa til að festa gengi krónunnar við annan gjaldmiðil. Vinna peningastefnunefndar sem skipuð hefði verið byggðist á því að krónan yrði enn fremur framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar.

Frétt mbl.is: Stendur ekki til að festa gengið

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði hins vegar aðspurð í kvöldfréttum Stöðvar 2 á þriðjudaginn að það þyrfti „að fara að taka út krónuna“ og koma á stöðugri peningamálastefnu. En það er ekki aðeins í peningamálum sem komið hafa misvísandi skilaboð frá ráðamönnum landsins.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Eggert

Þannig sagði Jóna Sólveig Elínardóttir, þingmaður Viðreisnar og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, í samtali við bandaríska dagblaðið Washington Times í febrúar að aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) og EES-samningnum dugði ekki til þess að tryggja hagsmuni Íslands gagnvart Evrópusambandinu.

Frétt mbl.is: Segir EES ekki duga lengur

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, gerði ummæli Jónu Sólveigar að umtalsefni á Alþingi í kjölfarið og benti á að ummæli hennar sem formanns utanríkismálanefndar þingsins gætu sent röng skilaboð um stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum. Ekki síst til samstarfsþjóða í EFTA.

Jóna Sólveig Elínardóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Jóna Sólveig Elínardóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis. mbl.is/Árni Sæberg

Lilja spurði Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra hvort hann væri sammála ummælum Jónu Sólveigar og svaraði hann því til að ef rétt væri eftir henni haft væri hann það ekki. 

Frétt mbl.is: Hafa málfrelsi í Evrópumálum

Málið var aftur rætt á Alþingi skömmu síðar að frumkvæði Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns VG, sem spurði Jónu Sólveigu út í það en hún svaraði því til að þingmenn stjórnarmeirihlutans hefðu málfrelsi í Evrópumálum.

Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra. mbl.is/Golli
mbl.is