Andlát: Sigurður A. Magnússon

Sigurður A. Magnússon rithöfundur
Sigurður A. Magnússon rithöfundur

Sigurður A. Magnússon, rithöfundur, blaðamaður og leiðsögumaður, lést á Landakotsspítala 2. apríl sl. Hann varð 89 ára.

Sigurður var fæddur 31. mars 1928 á Móum á Kjalarnesi. Foreldrar hans voru Aðalheiður Jenný Lárusdóttir húsmóðir, fædd á Vaðli á Barðaströnd, og Magnús Jónsson verkamaður frá Selalæk á Rangárvöllum.

Sigurður lauk stúdentsprófi frá MR árið 1948 og síðan prófi í forspjallsvísindum, grísku og trúarbragðasögu og nam einnig guðfræði við Háskóla Íslands. Hann stundaði nám í guðfræði, bókmenntum og sögu við háskóla í Kaupmannahöfn, Aþenu, Stokkhólmi og New York. Hann lauk BA-prófi í samanburðarbókmenntum frá New School for Social Research í New York.

Hann var kennari hér og í New York og útvarpsfyrirlesari hjá Sameinuðu þjóðunum. Sigurður var blaðamaður við Morgunblaðið á árunum 1955 til 1967, skrifaði meðal annars bókmenntagagnrýni og leikdóma, og var ritstjóri Lesbókar. Hann var síðan ritstjóri tímaritsins Samvinnunnar og skólastjóri Bréfaskólans og var lengi leiðsögumaður, ekki síst í Grikklandi.

Eftir Sigurð liggur fjöldi rita: skáldsögur, ferðasögur, ljóð, leikrit, ævisögur, greinasöfn og fræðslurit, auk rita á ensku og bóka sem hann þýddi á íslensku úr dönsku, ensku, grísku og þýsku. Hann fékk verðlaun og viðurkenningar fyrir fyrsta bindi skáldlegrar sjálfsævisögu sinnar, Undir kalstjörnu, sem kom út 1979.

Hann var formaður Rithöfundasambands Íslands um árabil, Íslandsdeildar Amnesty International, Grikklandshreyfingarinnar og Grikklandsvinafélagsins Hellas og gegndi fjölda annarra trúnaðarstarfa.

Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er Ragnhildur Bragadóttir sagnfræðingur, skjalastjóri biskups Íslands. Dóttir þeirra er Þeódóra Aþanasía. Uppkomin börn Sigurðar eru Kristín, Hildur, Magnús Aðalsteinn og Sigurður Páll.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert