Mótmæla hatursglæpum í Tsjetsjeníu

Félagar í samtökunum '78 komu saman við rússneska sendiráðið í …
Félagar í samtökunum '78 komu saman við rússneska sendiráðið í dag. Þeir báru bleikan þríhyrning til að mótmæla hatursglæpum í garð homma og tvíkynhneigðra karla í Tsjetsjeníu. mbl.is/Golli

Félagar í Samtökunum ’78 stóðu fyrir keðjustöðu við rússneska sendiráðið við Garðastræti í dag. Stóð fólk þar stuttar vaktir til skiptis til að mótmæla hatursglæpum í garð homma og tvíkynhneigðra karla í Tsjetsjeníu.

Félagar í samtökunum fylktu liði á Suðurgötu 3 og settu upp bleika þríhyrninga til minningar um merkið sem samkynhneigðum var gert að bera í heimsstyrjöldinni síðari. Því næst var gengið að rússneska sendiráðinu til að minna Rússa á skuldbindingar sínar á sviði mannréttindamála.

„Ástandið er svart,“ sagði María Helga Guðmundsdóttir, formaður Samtakanna '78, í samtali við mbl.is fyrr í dag um atburði síðustu vikna í Tsjetsjeníu. „Karlmönnum er smalað saman í fangabúðum sem eru óhugnanlega líkar þeim sem samkynhneigðir karlar dvöldu í í síðari heimsstyrjöldinni. Þeir eru pyntaðir, meðal annars til að fá upplýsingar um aðra samkynhneigða karla,“ sagði María Helga.

Að minnsta kosti eitt staðfest tilvik sé um að karlmaður hafi látist af völdum þeirra pyntinga sem hann varð fyrir og vitað sé um tvö önnur tilvik þar sem menn voru myrtir af fjölskyldum sínum að lokinni fangavist.

mbl.is