Báturinn sökk á leiðinni í land

Björgunarsveitarmaður reynir að slökkva eldinn í bátnum.
Björgunarsveitarmaður reynir að slökkva eldinn í bátnum. Ljósmynd/Stefán Grímur

Báturinn sem brann utan við Vopnafjörð í kvöld sökk er hann var á leiðinni í land eftir að Sveinbjörn Sveinsson, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, hafði tekið hann í tog.

Landhelgisgæslunni barst neyðarkall frá bátnum klukkan 19.46 en þá var eldur laus um borð.

Kallað var á rás 16 eftir aðstoð nærstaddra báta og björgunarsveitin Vopni kölluð út. Rétt fyrir klukkan átta tilkynnti skipstjórinn að hann væri kominn í flotgalla og ætlaði að fara í björgunarbát sem hann hafði sjósett en þá logaði talsverður eldur í bátnum, að því er segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Um tuttugu mínútum síðar kom Hólmi NS-56 þar að og fór skipstjórinn úr björgunarbátnum yfir í hann. Þaðan fór hann svo um borð í Sveinbjörn Sveinsson. Ekkert amaði að manninum.

Edda NS-113 kom einnig á vettvang til aðstoðar.

Frá björgunaraðgerðunum í kvöld.
Frá björgunaraðgerðunum í kvöld. Ljósmynd/Stefán Grímur

Aðstæður voru góðar á vettvangi, hæg norðnorðvestangola. Ágætlega gekk að slökkva eldinn í bátnum og að því búnu tók Sveinbjörn Sveinsson hann í tog en á leiðinni í land sökk hann.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna atviksins. Áður en hún fór í loftið var beiðni um aðstoð hennar afturkölluð enda hafði hættunni þá verið bægt frá, að því er segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert