Framkvæmdir stöðvaðar í Reykjanesbæ

Frá Reykjanesbæ.
Frá Reykjanesbæ. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur stöðvað framkvæmdir við gatnagerð ofan Iðavalla í Reykjanesbæ, á svokölluðum Flugvöllum. Gamlir ruslahaugar frá bandaríska hernum hafa verið grafnir þar upp á stóru svæði.

Þetta kemur fram á vef Víkufrétta.

Tjara vellur upp úr jarðveginum og mikið af járnarusli hefur komið úr jörðinni. Heilbrigðiseftirlitið óttast að þrávirk efni eins og PCB kunni að vera þarna í jörð. Vísindamenn hafa tekið jarðvegssýni til að sjá hvaða efni eru í jörðinni.

Þegar verkið var stöðvað hafði umtalsverðu magni af jarðvegi sem innihélt ýmiss konar járnarusl verið ekið brott af svæðinu og losað á svæði á Ásbrú.

Verktakafyrirtækið ÍAV annast framkvæmdir á svæðinu fyrir Reykjanesbæ. Við Flugvelli hefur flestum lóðum þegar verið úthlutað og áttu byggingaframkvæmdir að hefjast í sumar.

Tjara lekur úr jarðvegi á svæðinu og óttast Magnús H. Guðjónsson hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja í samtali við Víkurfréttir að þarna hafi verið urðuð tjara sem bandaríski herinn notaði meðal annars við malbikun flugbrauta á Keflavíkurflugvelli á sínum tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert