Vonar að sóknirnar verði sameinaðar

Benedikta, formaður sóknarnefndar í Fella- og Hólakirkju, vonast til að …
Benedikta, formaður sóknarnefndar í Fella- og Hólakirkju, vonast til að sóknirnar verði sameinaðar. mbl.is/Jakob Fannar Sigurðsson

„Ég vona að það verði hægt að sameina þessar sóknir, þó að ég hafi sjálf ekki vit á því hvernig það á að gerast. Þetta er svo víðtækt. Það er ekki bara kristnihlutinn, heldur allur reksturinn og það sem honum fylgir,“ segir Benedikta G. Waage, formaður sóknarnefndar Fella- og Hólakirkju, um hugsanlega sameiningu Fella- og Hólasóknar við Breiðholtssókn í Breiðholtskirkju.

Í Fréttablaðinu í dag kom fram að sóknarbörnum í Breiðholtskirkju hefði fækkað svo mikið að tekjur stæðu ekki lengur undir rekstri safnaðarins. Breiðholtssókn hefur því brugðið á það ráð að ræða við aðrar sóknir um sameiningu. Nú er komið að Fella- og Hólasókn, en Breiðholtssókn hafði áður rætt við Seljasókn án þess að nokkuð kæmi út úr því, að því er fram kemur í Fréttablaðinu.

Mikilvægt að heimafólki komi að máli

„Við erum bara að byrja. Þetta eru enn þá bara þreifingar og ekkert fast í hendi með það. Fyrsti formlegi fundurinn fer fram í kvöld. Við erum bara búin að hitta þau til að koma þessu á,“ segir Benedikta og bætir við: „Við erum að gera þetta að beiðni þeirra úr Breiðholtskirkju og við viljum ekki skorast undan, enda er þetta það sem koma skal víða.“

Hún bendir á að sameiningar af þessu tagi hafi verið að eiga sér stað í löndunum í kringum okkur. Þá séu nokkrar einingar reknar út frá einni miðjueiningu.

Þorvaldur Víðisson biskupsritari segir í samtali við mbl.is nokkur dæmi um að sóknir hafi sameinast á landsbyggðinni, en lagðar hafa verið fram tillögur á kirkjuþingi á síðustu árum um sameiningar sókna um land allt. „Þær tillögur hafa ekki fengið mikinn framgang, en prófastdæmi hafa verið sameinuð. Það er mikilvægt að svona sameining sé gerð af heimafólki en ekki kirkjuþingi eða einhverri yfirstjórn. Sóknin er þessi félagslega eining og því eðlilegt að fólkið sjálft segi til hvernig það vill hafa skipulagið.“ Aðspurður hvort slíkar sameiningar séu það sem koma skal segir Þorvaldur það alltaf viðleitni að halda vel utan um reksturinn og að reyna að þjónusta sem best.

Einn sóknarprestur í stað tveggja

Sameining sókna átti sér í raun stað í Fella- og Hólakirkju nýlega eftir að tvær sóknir höfðu verið þar um áratuga skeið. Þann 1. desember síðastliðinn voru Fellasókn og Hólasókn sameinaðar í Fella- og Hólasókn og á sama tíma var sóknarprestum fækkað úr tveimur í einn, lögum samkvæmt.

Benedikta segir það þó ekki hafa verið gert í hagræðingarskyni, enda standi söfnuðurinn vel og hafi alltaf gert. Þetta hafi verið gert til að minnka flækjustigið í rekstrinum. Það sé til að mynda mun einfaldara að hafa eina sóknarnefnd en ekki tvær.

„Það var mín heitasta ósk að sameina sóknirnar aftur. Þó að margir hafi haldið að það væri betra að reka hlutina eins og þeir voru gerðir þá var það alls ekki minni vinna. Þegar sóknarpresturinn í Fellasókn sagði starfi sínu lausu þá ákváðum við að sameina. Það hefur líka fækkað í sóknunum báðum.“ Annar prestur mun þó þjóna sóknarbörnum með sóknarprestinum, Guðmundi Karli Ágústssyni, líkt og tíðkast í mörgum kirkjum.

Sóknarbörnum hefur fækkað af ýmsum ástæðum, að sögn Benediktu, meðal annars vegna breyttrar samsetningar íbúa hverfanna. Innflytjendur fari til að mynda ekki endilega í Þjóðkirkjuna. Þá hafa þau ekki farið varhluta af almennri fækkun sóknarbarna Þjóðkirkjunnar vegna úrsagna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert