Vongóður um að lausn finnist

Íþróttamannvirkin á Laugarvatni hafa verið lokuð frá 1. júní.
Íþróttamannvirkin á Laugarvatni hafa verið lokuð frá 1. júní. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við leggjum áherslu á að reksturinn á mannvirkjunum verði tryggður og það til framtíðar. Ég er vongóður um að sú lausn finnist. Það skiptir miklu máli fyrir samfélagið á Laugarvatni,“ segir Helgi Kjartansson, oddviti bláskógarbyggðar, um íþróttamannvirkin á Laugarvatni sem hafa verið lokuð frá síðustu mánaðamótum. Háskóli Íslands hætti um mánaðamótin kennslu í íþróttafræðum við Laugarvatn.

Viðræður standa enn yfir milli sveitarfélagsins og ríkis um rekstur þeirra. Fundur á milli þeirra sem átti að fara fram í síðustu viku var frestað fram í þessa viku og sá fundur verður líklega haldinn í lok vikunnar.

Oddvitinn segir mikilvægt að ríkið axli ábyrgð á þessu máli sérstaklega í ljósi þess að samfélagið á Laugarvatni hefur byggst upp í kringum ríkisskólana sem hafa verið starfræktir þar í gegnum tíðina eins og t.d. Héraðsskólinn, Húsmæðraskólinn, Menntaskólinn á Laugarvatni og íþróttakennaraskólinn.  

Ljóst er að uppsafnað viðhald er á eignunum sem lítið hefur verið sinnt síðustu ár. Ekki fékkst upp gefið hversu hár sá kostnaður er.  

Nokkr­ir fund­ir hafa verið með sveit­ar­stjórn­inni og fjár­mála- og mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­inu um að finna lausn á mál­inu. Fyrsti fund­ur­inn var 12. maí síðastliðinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert