Hagkvæmara að flytja inn frá Evrópu

mbl.is/Ófeigur

„Hugmyndin að opnun Costco á Íslandi var fyrst sett fram af kanadísku deildinni okkar. Forsvarsmenn okkar í Kanada höfðu tekið eftir því að töluvert var pantað af vörum frá þeim til Íslands og sáu tækifæri í því að setja upp hliðstæða starfsemi þar og þeir höfðu þróað á Nýfundnalandi. Ef við hefðum haldið okkur við þessi áform hefðum við líklega opnað á Íslandi með meira úrval af kanadískum matvörum í hillunum okkar.“

Frétt mbl.is: Reglur um merkingar stoppuðu Costco

Þetta segir Steve Pappas, framkvæmdastjóri Costco í Bretlandi, í samtali við mbl.is spurður um tilurð þess að fyrirtækið ákvað að hefja starfsemi hér á landi. Eftir að hafa rannsakað íslenska markaðinn komst Costco hins vegar að þeirri niðurstöðu að hagkvæmara yrði að opna útibú hér á landi út frá starfsemi fyrirtækisins í Bretlandi. Þrjár ástæður voru einkum fyrir því; færri hömlur væru á innflutningi frá Evrópu en Ameríku, flutningskostnaður væri lægri á milli Bretlands og Íslands, og starfsmenn Costco í Bretlandi hefðu langa reynslu af því að flyta inn vörur til Evrópulanda frá framleiðendum um allan heim.

Ósanngjörn takmörkun á vali íslenskra neytenda

Komi til þess að ódýrara verði að flytja inn vörur til Íslands muni það að sjálfsögðu skila sér í lægra verði til félagsmanna Costco. Til að mynda séu miklar takmarkanir á innflutningi á fersku kjöti til Íslands. Óheimilt sé að flytja til landsins ferskt nautakjöt, fuglakjöt, svínakjöt og lambakjöt. Hvort sem framleiðslan kemur fram Evrópu eða Ameríku sem væri að hans viti einsdæmi í Evrópu. „Við virðum að sjálfsögðu rétt ríkja til þess að standa vörð um innlenda matvælaframleiðslu og tryggja matvælaöryggi borgara sinna en að okkar mati takmarka þessar reglur með ósanngjörnum hætti val íslenskra neytenda.“

Steve Pappas, framkvæmdastjóri Costco í Bretlandi.
Steve Pappas, framkvæmdastjóri Costco í Bretlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þannig sé vöruúrvalið í Costco líkara því sem þekkist í Bretlandi en engu að síður sé fyrirtækið að selja töluvert af alþjóðlegum varningi sem seldar séu á alþjóðavísu og þar á meðal ýmsar bandarískar vörur. 

„Til að mynda fáum við ferskt grænmeti og ávexti daglega með flugi frá Kaliforníu og vörurnar sem merktar eru með Kirkland Signature-merkinu eru bandarískar. Eftir því sem við kynnumst félagsmönnum okkar á Íslandi betur munum við vafalaust fínpússa vöruúrvalið okkar þannig að það endurspegli betur eftirspurnina og þar með talið með því að bæta við vörum frá Ameríku, Norðurlöndunum og öðrum löndum þar sem við erum með starfsemi.“

Pappas segir rétt að hafa í huga í því sambandi að þó aðeins séu um 3.500 vörutegundir að staðaldri til sölu í vöruhúsi Costco á Íslandi á hverjum tíma sé um þriðjungur þeirra árstíðarbundnar vörur og annar þriðjungur sé vörur sem hugsanlega séu aðeins á boðstólum einu sinni í takmarkaðan tíma. 

Greinilega góð ákvörðun að koma til Íslands

„Þannig sjá félagsmenn okkar 5.000-6.000 ólíkar vörur til sölu yfir árið sem gerir okkur kleift að vera alltaf með eitthvað nýtt á boðstólum og skapa upplifun sem við köllum gjarnan fjársjóðsleit.“ Þá sé Costco einnig að kanna möguleikana á því að finna og þróa íslenskar vörur sem hægt sé að selja í vöruhúsum fyrirtækisins á heimsvísu. Þar á meðal fiskmeti, lambakjöt, vatn og aðrar staðbundnar vörur.

Spurður um fríverslunarsamning Íslands við Kína og hvernig hann nýtist Costco segir Pappas að fyrirtækinu sé kunnugt um samninginn og tilvist hans hafi þó ekki vegið þungt í ákvörðuninni um að hefja starfsemi á Íslandi. Hins vegar sé Costco að kanna hvaða möguleikar kunni að felast í samningnum þegar komi að vörum sem séu fluttar inn beint frá Kína.

„Miðað við frábærar viðtökur íslenskra neytenda vegna opnunar okkar er ljóst að mínu mati að Costco tók mjög góða ákvörðun með því að opna vöruhús á Íslandi. Við hlökkum til þess að verða ábyrgur þátttakandi í viðskiptalífi landsins og framfylgja þeirri stefnu fyrirtækisins að útvega félagsmönnum okkar gæðavörur og þjónustu á eins lágu verði og mögulegt er.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is