Sauðaþjófar skáru lamb á háls

Lambið fannst í svörtum plastpoka í bílnum, skorið á háls. …
Lambið fannst í svörtum plastpoka í bílnum, skorið á háls. Úr myndasafni mbl.is. „Þeir voru bara að ná sér í á grillið," segir Bjarki Svavarsson, sem varð vitni að atvikinu. Myndin er úr safni. mbl.is/RAX

Ábúendur á Núpi í Berufirði gómuðu í gærkvöldi níu erlenda ferðamenn sem höfðu hlaupið lamb uppi og skorið á háls. Bjarki Svavarsson sem var vitni að atvikinu, sagði sauðaþjófana hafa verið svanga. „Þeir voru bara að ná sér í á grillið.“ Málið hefur verið kært til lögreglu. Þjófarnir voru níu fullorðnir Afganar sem búsettir eru í Bandaríkjunum. Kom heimafólk að þeim á tveimur húsbílum við Kleifarétt. 

Kolbrún Rós Björgvinsdóttir, dóttir bóndans á Núpi varð fyrst vör við að eitthvað væri athugavert við atferli mannanna. Hún var á heimleið með dóttur sína eftir matarboð á bænum, en á ferð sinni sá hún níu karlmenn eltast við lamb á túní bæjarins. Ábúendur höfðu tafarlaust samband við landeigandann Hrein Pétursson og lögreglu. „Þeir voru níu saman og ég vildi ekki vera einn að ræða við þá, ég sá bara að það var eitthvað athugavert,“ segir Bjarki.

Skorið á háls í svörtum poka

Bjarki, Hreinn, Björgvin Rúnar Gunnarsson, sem er bóndinn á Núpi, og Katrín Birta Gunnarsdóttir dóttir hans, tóku mennina á tal sem voru að sögn Björgvins ónotalegir í samskiptum. „Þeir rifu kjaft fyrst og lugu,“ segir hann. Í fyrstu vildu mennirnir ekkert viðurkenna. „Þeir vildu ekki viðurkenna neitt strax en fljótlega viðurkenndu þeir að þeir væru með lamb þarna. Lambið var í svörtum poka í bílnum og þeir voru búnir að skera það á háls,“ segir Bjarki.

Ferðamennirnir gáfu þær skýringar að lambið hefði verið sært og það þyrfti að aflífa það. „Þeir sögðust vera bjarga lambinu frá drukknun eftir að það hefði hoppað út í sjó. Þeir bulluðu einhverja steypu. Þeir voru bara að ná sér í á grillið,“ segir Bjarki.

Sekt uppá 120.000 krónur

Málið var kært til lögreglu sem kom fljótt á svæðið. Samkvæmt lögreglunni á Austurlandi voru mennirnir handteknir og færðir uppá lögreglustöð á Fáskrúðsfirði. Eftir að hafa játað sök, borguðu þeir fyrir tjónið til bónda og sekt í ríkissjóð uppá 120.000 krónur, fyrir brot á eignarspjöllum. Að því loknu var mönnunum sleppt.

Björgvin segist vona að hann hitti aldrei mennina aftur, en hann hafi fengið slæma tilfinningu frá þeim. „Mér finnst þetta ónotalegt að menn skuli koma frá öðrum löndum og veiða sér til matar. Ég veit ekki hvað þeir voru að spá, níu fullorðnir karlmenn.“

Ekki einsdæmi

Bjarki segir þetta vera hið versta mál. „Mér finnst þetta bara skelfilegt. Það er alveg 100% að þeir voru bara að ná sér í að éta.“ Hann segir þetta heldur ekki vera einsdæmi. „Auðvitað gera margir þetta. Ég er alveg viss um það,“ segir hann.

Björgvin og Bjarki segja báðir að undanfarin ár hafi fleiri lömb horfið á sumrin. „Það er svo oft sem að bændur vantar lömb á haustin sem að spyrst ekkert til,“ segir Bjarki og bætir við: „Það er alltaf eitthvað sem drepst úti eðlilega en svo ná túristar sér í líka.“  

Uppfært klukkan 13:13

Upphaflega kom fram í fréttinni að atvikið hefði gerst á bænum að Ósi í Breiðdal. Það reyndist ekki vera rétt og hefur það nú verið leiðrétt. Einnig hefur verið leiðrétt að sektað hafi verið fyrir brot á velferð dýra, einungis var sektað fyrir eignaspjöll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert