Undirbúningur Þjóðhátíðar á lokametrunum

Hið árlega kapphlaup um stæði fyrir hvítu tjöldin er á …
Hið árlega kapphlaup um stæði fyrir hvítu tjöldin er á morgun. mbl.is/Óskar P. Friðriksson

Þjóðhátíð Vestmannaeyja verður á sínum stað um verslunarmannahelgina. Búist er við svipuðum fjölda og í fyrra á hátíðina, eða um 15.000 manns. Undirbúningur gengur vel og á morgun verður hið árlega kapphlaup um stæði fyrir hvítu tjöldin.

„Undirbúningur gengur bara mjög vel, ég held við höfum bara aldrei verið komin jafn langt á þessum tíma,“ segir Jónas Guðbjörn Jónsson, talsmaður þjóðhátíðarnefndar, í samtali við mbl.is. Að sögn er búist við svipuðum fjölda og í fyrra, í kringum 15.000 manns. „Það er svo alltaf fjölmennast á sunnudeginum,“ segir Jónas.

Veðurspá helgarinnar lítur vel út en síðustu ár hefur jafnan verið gott veður á Þjóðhátíð. „Mér leist nú ekkert á þetta um daginn það var leiðindakafli framan af í júlí hérna í Eyjum svo bara snerist þetta alveg við,“ segir Jónas.

Feðgarnir Ólafur Týr og Ólafur Freyr merkja sitt svæði á …
Feðgarnir Ólafur Týr og Ólafur Freyr merkja sitt svæði á Lundaholum í fyrra. Ljósmynd/Jóhanna Alfreðsdóttir

Á morgun er svo hið árlega kapphlaup um tjaldvæði fyrir hvítu tjöldin. „Þá hlaupa allir og merkja sér tjaldsvæði,“ segir Jónas. Að sögn verður það með sama sniði og síðustu ár þar sem sjálfboðaliðar hátíðarinnar fá tveggja mínútna forskot á aðra.

„Þetta er svona gömul hefð sem er gaman að halda í,“ segir Jónas og segir að þó stundum  hitni í kolunum milli tjaldbúa þá vari það ekki lengi. „Fólk hefur kannski alltaf verið á sama stað og nær svo ekki sínu stæði, en það er búið eftir 5 mínútur,“ segir Jónas og bætir við að nóg pláss sé fyrir alla.

Tjöldunin sjálf fer svo fram á fimmtudag og segir Jónas fjölda hvítu tjaldanna svipaðan síðustu ár. „Það rokkar aðeins á milli ára en er yfirleitt í kringum 300 tjöld. „Við erum á síðustu metrunum í undirbúningi í Dalnum, erum einmitt að græja aðstöðu fyrir gæsluna núna. Við erum bara á góðum tíma,“ segir Jónas að lokum.

Frá undirbúningi Þjóðhátíðar í fyrra. Fjölmargir sjálfboðaliðar aðstoða við hin …
Frá undirbúningi Þjóðhátíðar í fyrra. Fjölmargir sjálfboðaliðar aðstoða við hin ýmsu verkefni. Ljósmynd/Jóhanna Alfreðsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert