Funduðu með réttarmeinafræðingi

Skýrsla verður tekin af Thomasi Möller Olsen þann 21. ágúst.
Skýrsla verður tekin af Thomasi Möller Olsen þann 21. ágúst. mbl.is/Kristinn Magnússon

Varahéraðssaksóknari og verjandi Thomasar Möller Olsen, sem er ákærður fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur, áttu í dag fund með Urs Oliver Wiesbrock, þýska matsmanninum og dómkvöddum réttarmeinafræðingi í málinu. Rúv greindi fyrst frá.

Mat réttarmeinafræðingsins liggur þó ekki fyrir ennþá en að sögn Kolbrúnar var um að ræða fund sem dómskvöddum matsmanni ber samkvæmt lögum að bjóða aðilum máls upp á.

„Stundum er ekki þörf á matsfundi. Matsmaður þarf alltaf að bjóða upp á þennan matsfund þar sem hægt er að gefa aðilum máls færi á að koma að einhverjum athugasemdum eða gögnum eða einhverjum spurningum, áhersluatriðum eða eitthvað slíkt, á framfæri,“ segir Kolbrún í samtali við mbl.is.

„Í þessu tilviki var óskað eftir því að það yrði haldinn matsfundur og þá fer hann fram lögum samkvæmt,“ segir Kolbrún sem kveðst ekki geta tjáð sig að öðru leyti um efni fundarins.

Í kjölfarið verður matinu skilað og á Kolbrún von á að það verði mjög fljótlega, fyrir þann fyrir þann 21. ágúst þegar aðalmeðferð hefst með skýrslutöku af Thomasar Möller Olsen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert