Segir vinnubrögð borgarstjóra vítaverð

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir vinnubrögð Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og annarra fulltrúa meirihluta borgarstjórnar við ráðningu borgarlögmanns vítaverð og skólabókardæmi um hvernig ekki á að standa að ráðningu í opinbert embætti.

Samþykkt var á fundi borgarráðs í dag að Ebba Schram yrði ráðin í stöðu embættis borgarlögmanns. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborgar vegna ráðningarinnar kemur fram að Ebba hafi gegn starfi staðgengils borgarlögmanns frá árinu 2013 og að hún hafi átta ára reynslu af störfum innan stjórnsýslunnar.

Ennfremur segir þar að teknu tilliti til menntunar og reynslu sem metin var af fyrirliggjandi umsóknargögnum, í starfsviðtölum og með öflun umsagna var Ebba Schram metin hæfasti umsækjandinn í starf borgarlögmanns.

Óviðunandi vinnubrögð

„Óviðunandi vinnubrögð borgarstjóra og annarra fulltrúa meirihlutans í þessu máli benda til að annarleg sjónarmið ráði þegar ráðið er í æðstu stöður hjá Reykjavíkurborg,“ segir Kjartan og bætir við að fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafi lagt til að allt ferli málsins yrði endurskoðað og staðan þar með auglýst að nýju. Þeirri tillögu var vísað frá.

„Athygli vekur að forseti borgarstjórnar studdi ekki tillögu borgarstjóra um ráðningu borgarlögmanns,“ segir Kjartan en Líf Magneudóttir er forseti borgarstjórnar. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sendu frá sér bókun vegna málsins, þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð meirihlutans. 

„Athygli vekur að einungis tveir einstaklingar sóttu um embættið, sem er eitt hið mikilvægasta og best launaða innan borgarkerfisins. Staðan var aðeins auglýst einu sinni í einu dagblaði og kann það að vera skýringin á því að ekki sóttu fleiri um stöðuna,“ segir meðal annars í bókun Sjálfstæðismanna.

Þar segir ennfremur að mörg fordæmir séu fyrir því hjá borginni að umsóknarfrestur sé framlengdur eða stöður auglýstar að nýju þegar um fáa umsækjendur er að ræða eða ef málsmeðferð stenst ekki gagnrýni 

„Er slæmt til þess að vita að borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna, skuli með þessum vinnubrögðum halda áfram í þeim leiðangri sínum að draga úr gagnsæi í tengslum við ráðningar í mikilvægustu stöður í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar með því að takmarka upplýsingagjöf til borgarráðsmanna í tengslum við þær,“ segja Sjálfstæðismenn sem leggja að endingu til að ráðningu borgarlögmanns verði frestað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert