Færði safninu forláta pönnukökuspaða

Unnur Guðjónsdóttir hefur gefið Árbæjarsafninu 80 ára gamlan pönnukökuspaða.
Unnur Guðjónsdóttir hefur gefið Árbæjarsafninu 80 ára gamlan pönnukökuspaða. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Pönnukökuspaðinn er keyptur árið 1937 og er því orðinn áttræður. Við erum bara tvær sem höfum notað hann. Mamma mín og síðan ég. Þegar hún lést árið 1991 þá erfði ég spaðann og er búin að nota hann allar götur síðan,“ segir Unnur Guðjónsdóttir sem færði í dag Árbæjarsafni forláta pönnukökuspaða í tilefni af 60 ára afmæli safnsins.

„Mamma mín var nú þannig að þegar eitthvað fór að slitna þá var hún ekkert að kaupa eitthvað nýtt. Ég sé það á spaðanum að einhvern tímann hefur skaftið verið farið að losna og hann hefur þá gert við það. Slegið þetta saman,“ segir Unnur og bætir því við að hún hafi áður gefið bæði Árbæjarsafni og fleiri söfnum hluti sem hafa sögulegt gildi.

Unnur afhendir starfsmönnum Árbæjarsafns pönnukökuspaðann.
Unnur afhendir starfsmönnum Árbæjarsafns pönnukökuspaðann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjálf heldur Unnur úti eigin safni um Kína á heimili sínu við Njálsgötu í Reykjavík. Hún segist ennfremur vilja hvetja fólk til þess að hafa samband við söfnin í landinu áður en það hendir hlutum sem hugsanlega hafi eitthvað slíkt gildi. Stundum kunni að vera um verðmæta hluti að ræða þó þeir séu hversdagslegir án þess að fólk átti sig á því.

„Ég hef gefið hluti á Þjóðminjasafnið, Þjóðarbókhlöðuna og fleiri söfn og held einnig úti eigin safni sem ég kalla Kínasafn Unnar. En að þessi pönnukökuspaði sé orðinn áttræður, 20 árum eldri en Árbæjarsafnið, finnst mér dálítið merkilegt og líka vegna þess að foreldrar mínir áttu sumarbústað rétt hjá safninu og þarna lék ég mér sem barn.“

Fyrir vikið telji hún pönnukökuspaðann eiga vel heima í Árbæjarsafni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert