70 Færeyingar í Reykjavíkurmaraþoni

70 Færeyingar taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í ár. Árlega er …
70 Færeyingar taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í ár. Árlega er haldið maraþon í Þórshöfn þar sem hlaupamenningin fer vaxandi. Ljósmynd/aðsend

Um 70 Færeyingar koma hingað til lands til þess að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn og kynna um leið Þórshafnar maraþonið fyrir Íslendingum. Er þetta í fyrsta sinn sem svo stór hópur fer en meðlimir hans hafa ferðast víða um heim í þeim tilgangi að taka þátt í maraþonum.

Robert Vilhelmssen, upphafsmaður Þórshafnar maraþonsins, kemur hingað til lands með hópnum en hann segir að áhugi Færeyinga á maraþonhlaupi hafi vaxið mikið síðastliðin ár.  

Robert Vilhelm er stofnandi maraþonsins í Þórshöfn. Hann, ásamt öðrum, …
Robert Vilhelm er stofnandi maraþonsins í Þórshöfn. Hann, ásamt öðrum, hefur heimsótt maraþon um allan heim. Næst kemur hann ásamt hópi Færeyinga til Íslands til þess að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Ljósmynd/aðsend

64 manns eru skráðir til þess að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu en Robert býst við að þátttakendur verði um 70. Hópurinn samanstendur af fólki frá tveimur færeyskum íþróttaklúbbum, annarsvegar frá Þórshöfn og hins vegar frá Suðurey.

Hafa þau undanfarin ár heimsótt hin ýmsu maraþon um allan heim. Robert segir þau hafa frá árinu 2003 heimsótt maraþon í London og Kaupmannahöfn meðal annarra. „Þetta er ekkert nýtt, en þetta er stærsti hópurinn til þessa sem ferðast erlendis,“ segir hann.

Auknar vinsældir maraþonhlaups í Færeyjum 

Þórhafnar maraþonið er árlegur viðburður og var síðast haldið í júní á þessu ári. Um 500 manns tóku þátt, þar af um 60% þátttakendur erlendis frá. Robert segir fólk alls staðar að úr heiminum koma til Færeyja til þess að hlaupa en í samanburði við fjölda íbúa, sem eru um 50.000, er þetta frekar stór viðburður. 

Hann, ásamt öðrum, mun vera með bás á Fit & Run vöru- og þjónustusýningunni sem haldin er á vegum Reykjavíkurmaraþons í Laugardalshöll á fimmtudag og föstudag. Þar ætla þau að kynna Þórshafnarmaraþonið. Robert vonast til þess að þar komist þau í samband við Íslendinga sem og erlenda gesti og vekja hjá þeim athygli á að heimsækja maraþonið í Færeyjum á næsta ári.

500 manns tóku þátt í Þórshafnarmaraþoninu í júní þar sem …
500 manns tóku þátt í Þórshafnarmaraþoninu í júní þar sem meirihluti þátttakenda kom erlendis frá. Ljósmynd/Faroephoto.com

Þá segir hann að þau hafi sett sig í samband við skipuleggjendur maraþonsins hér og stefni á að hitta þau og ræða mögulegt samstarf. „Þórshöfn og Færeyingar hafa átt í góðu sambandi við Ísland og við vonum að skipuleggjendur maraþonsins á Íslandi hafi áhuga á að vinna með okkur í framtíðinni,“ segir hann. 

Þá vonast hann til þess að fá jafn stóran hóp frá Íslandi til Færeyja á næsta ári. „Ef við reiknum þetta í samanburði við mannfjölda á Íslandi gætum við búist við um 3 – 400 Íslendingum til Færeyja í maraþonið á næsta ári,“ segir Robert og hlær.

Hópurinn ætlar að kynna maraþonið í Færeyjum fyrir Íslendingum á …
Hópurinn ætlar að kynna maraþonið í Færeyjum fyrir Íslendingum á Fit & Run Expo í Laugardalshöll á fimmtudag og föstudag. Ljósmynd/Pharoephoto.com
mbl.is