Huglægt mat ráðherra ekki í boði

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra á fundinum í morgun.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tekið hefur verið ítrekað til skoðunar í ráðuneyti dómsmála hvort ráðherra sé heimilt að undanskilja ákveðna brotaflokka eða afgreiða mál eftir persónulegu mati sínu á umsóknum um uppreist æru. Niðurstaðan hefur hins vegar ávallt verið sú að ráðherra væri ekki heimilt að víkja út frá þeirri stjórnsýslureglu að samþykkja beri umsókn svo framarlega sem lagaskilyrði væru uppfyllt.

Þetta kom meðal annars fram í máli Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra á opnum fundi í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis í morgun þar sem fjallað var um uppreist æru. Ráðherra hyggst, eins og mbl.is hefur áður fjallað um, leggja fram frumvarp í haust þar sem gert verði ráð fyrir að ekki verði lengur hægt að sækja um uppreist æru. Ákvæði þess efnis í almennum hegningarlögum verði felld brott og þess í stað sett önnur skilyrði í lögum þar sem í dag er talað um óflekkað mannorð.

Sigríður sagðist sammála þeirri gagnrýni að ferlið hafi verið vélrænt. Frumvarpsvinnan í ráðuneytinu miðaði meðal annars að því að koma ferli slíkra mála í annað form. Hins vegar væru bæði kostir og gallar við vélrænt ferli. Það væri heldur ekki gott að framkvæmdavaldið væri að taka geðþóttaákvarðanir í slíkum málum þannig að umsækjendur vissu til að mynda ekki hvort þeir ættu rétt á því að sækja um uppreist æru eða ekki.

Ráðherrann lagði áherslu á mikilvægi þess að framkvæmdavaldið og dómstólar færu að lögum og að það væri Alþingis að selja lög í þessum sem öðrum efnum sem væru í samræmi við málvitund almennings. Benti hún á í því sambandi að hugmyndir almennings um hvað fælist í hugtakinu væru ekki endilega í samræmi við eðli þess. Tók hún vel í hugmyndir um samstarf við nefndina og aðra þingmenn við frumvarpsvinnuna enda væru allar ábendingar vel þegnar.

Sigríður sagði enn fremur ljóst að umsækjendur væru ekki alltaf með það að hreinu hvað fælist í uppreist æru. Helmingur umsókna frá 1995 væri frá einstaklingum sem hefðu ekki þörf á slíku. Þá teldu greinilega sumir að sakaskrá hreinsaðist við uppreist æru sem væri ekki raunin. Sagðist hún vita til þess að umsókir hafi gjarnan legið þungt á ráðherrum dómsmála. Einkum þær sem vörðuðu alvarleg brot. Hins vegr væri eðlilegast að breytingar á þessu ferli yrðu gerðar með lagabreytingum.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert