Sárkvaldar eftir ígræðslu neta í leggöng

Aðeins eru gerðar 3 til 4 aðgerðir á ári, hér …
Aðeins eru gerðar 3 til 4 aðgerðir á ári, hér á landi, þar sem net er notað til að lagfæra blöðru-, leg- eða endaþarmssig. mbl.is/Hjörtur

Kristín Jónsdóttir, yfirlæknir á kvennadeild Landspítalans, segir net sem notuð hafa verið af læknum víða um heim, þar á meðal á Íslandi, til að lagfæra blöðru-, leg- og endaþarmssig kvenna, ekki hafa verið nógu mikið rannsökuð og prófuð áður en þau voru sett á markað. Hún segir netin jafnframt of mikið notuð.

Ýmis vandkvæði og aukaverkanir hafa komið upp í tengslum við netin og hafa konur lýst óbærilegum sársauka vegna þeirra. Sumar kvennanna geta jafnvel ekki gengið vegna sársauka og ekki stundað kynlíf. Þær segja lífsgæði sín hafa skerst verulega. 

Netin eru annað hvort grædd undir þvagrásina eða undir slímhúð í leggöngum og koma þau í veg fyrir að líffæri, eins og leg og þvagblaðra, sígi niður og þrýsti sér upp að vegg leggangnanna, sem getur valdið konum miklum óþægindum. Er þetta algengt vandamál hjá konum eftir barnsburð. Í mörgum tilfellum hefur ígræðsla netanna hins vegar snúist upp í andhverfu sína og netin sjálf valdið konum miklum óþægindum og alvarlegum aukaverkunum.

Hundruð Ástralskra kvenna standa að hópmálsókn á hendur lækningavöruframleiðandanum Johnson & Johnson, sem framleiðir slík net. Málið er nú rekið fyrir dómstólum í Ástralíu og hefur fréttamiðilinn The Guardian gert málinu skil. Þá hafa hátt í þúsund breskra kvenna farið í mál við NHS, ríkisrekna heilbrigðiskerfið þar í landi, og Johnson & Johnson, vegna netanna. Sambærileg dómsmál eru einnig í gangi fyrir dómstólum í Kanada og Bandaríkjunum.

Konur hafa meðal annars greint frá því að netin hafi skorist inn í leggöng þeirra og valdið óbærilegum sársauka. Ein kona sagði í samtali við BBC að sársaukinn hefði verið svo mikill að hún hefði íhugað sjálfsvíg á tímabili. Vilja konurnar meina að þær hafi verið notaðar sem tilraunadýr fyrir framleiðandann. Johnson & & Johnson er þó ekki eini framleiðandi slíkra neta en í frétt The Guardian kemur fram að netin frá þeim hafi verið langmest notuð í Bretlandi, og má því ætla að þannig hafi það verið víðar.

Aðeins notuð af illri nauðsyn hér á landi

Kristín Jónsdóttir, yfirlæknir á kvennadeild Landspítalans, hefur gert aðgerðir sem þessar á Landspítalanum í tíu ár. Hún notast hins vegar aðeins við netin þegar allar aðrar aðferðir hafa verið reyndar. Hún segir netin ekki hafa verið rannsökuð nógu mikið áður en þau voru kynnt sem lausn. Þau séu því ekki grædd í konur hér á landi nema af illri nauðsyn.

Net frá Johnson & Johnson voru notuð hér á landi um árabil en þau eru ekki notuð lengur, að sögn Kristínar. Henni þóttu þau þó ekki verri en hin, sem notuð eru nú „Miðað við hvernig við notuðum þau þá voru ekki meiri vandræði í kringum þau heldur en önnur net. Vandamálið er að þessi net hafa verið notuð of mikið og í þeim tilvikum þar sem á ekki að nota þau.“

Kristín segir að ákveðið hafi verið að skipta um net fyrir nokkrum árum því nýju netin henti aðgerðartækninni hér á landi betur en netin frá Johnson & Johnson. Þá hafi umræðan sem skapast hafði um netin líka haft sín áhrif. Hún segir netin sjálf hins vegar vera samskonar. Það séu aðeins festingarnar sem eru frábrugðnar.

Of lítið rannsökuð og prófuð

Kristín tekur fram að tvær gerðir af netum hafi verið í umræðunni, sem notuð séu við tvenns konar aðgerðir.

„Umræðan er um tvennskonar mismunandi net. Annars vegar net sem við notum við þvagleka, sem við köllum frekar band en net þó það sé gert úr sama efni. Þau eru sett undir þvagrásina til að koma í veg fyrir áreynsluþvagleka. Hins vegar eru það net sem notuð eru við blöðru- eða endaþarmssigi sem stóra umræðan snýr að erlendis. Þau eru sett undir slímhúðina í leggöngunum. Þessi net eru stærri og það eru þau sem hafa verið að valda vandamálum. Það hefur verið notað kannski aðeins of mikið af þeim í tilvikum þar sem hefði verið hægt að nota aðra aðferð.“

Kristín segir aðgerðina sem gerð er við þvagleka, þar sem neti er komið fyrir, vera mun smærri í sniðum en aðgerð við blöðru-, leg- og endaþarmssigi. Um minna inngrip sé að ræða. „Það er minna um aukaverkanir af þeim þó það sé alltaf eitthvað. Það er líka búið að nota þau miklu lengur og komin meiri reynsla á þau.“

Umræddar þvaglekaaðgerðir hafa verið gerðar hér á landi í yfir 20 ár, en sambærilegar aðgerðir við blöðru-, leg- og endaþarmssigi í um 10 ár. „Þau net voru ekki jafn vel rannsökuð áður en þau komu á markaðinn. Að margra mati komu þau í sölu of snemma og það hefði þurft að gera frekari rannsóknir. Ábendingarnar fyrir notkun þeirra hefðu líka þurfta vera skýrari.“

Átti að vera lausn fyrir reynslulitla lækna 

Kristín segir alltaf hætta á aukaverkunum við aðgerðir sem þessar, líkt og allar aðrar aðgerðir. Hún segir netin hins vegar hafa reynst ágætlega hér á landi. Lítið er þó notað af stóru netunum, líkt og áður sagði. Um er að ræða 3 til 4 tilfelli á ári þar sem þeim er komið fyrir. „Við notum þau bara þegar við höfum ekkert annað val. Þá er búið að ræða það vel við viðkomandi konu hvaða vandamál geti tengst því og hvort þær eru tilbúnar að samþykja það. Þær konur höfum við haft í eftirliti áfram og bjóðum þeim að hitta okkur einu sinni á ári til að tryggja að allt sé eins og það á að vera. Þetta hefur gengið mjög vel og ekki verið mikið um vandræði.“

Kristín segir að í langflestum tilfellum sé hægt að nota aðrar lausnir við blöðru-, leg- og endaþarmssigi og þær séu alltaf fyrsta val lækna hér á landi. 233 aðgerðir vegna blöðrusigs og þvagleka hafa að meðaltali verið gerðar á hverju ári, síðastliðin ár, þar sem ekki eru notuð net.

„Það sem gerðist með netin var að margir héldu að þetta yrði lausn fyrir þá sem höfðu ekki nógu mikla reynslu af annars konar aðgerðum. Þetta er svæði sem erfitt er að gera aðgerðir á og maður þarf mikla þjálfun. Það getur tekið langan tíma að þjálfa sig upp. Þetta er stórt vandamál. Það eru margar konur með blöðru- og legsig, þannig það eru kannski margir að gera aðgerðir án þess að hafa nógu mikla reynslu. Netið var sett á markaðinn sem lausnin, en sýndi sig svo að það voru ýmis vandkvæði, af því það var ekki búið að rannsaka það nógu mikið.“

Hún segir mikilvægt að læknar séu gagnrýnir á nýjungar og tryggi að það sé búið að rannsaka þær nógu vel áður en þær eru teknar í notkun. Þess vegna hafi hún sjálf ekki vanið sig á að nota netin nema í mjög litlu mæli.

Konur sem fá svona net á hér á landi eru yfirleitt búnar að fara að minnsta kosti í eina aðgerð þar sem reynt er að sauma til að styðja við líffærin. „Vefurinn er þá sennilega ekki nógu sterkur til að halda. Þá þurfum við aukastyrk og þar koma netin til sögunnar. Það myndast bandvefur í kringum netin sem myndar plötu sem heldur blöðrunni, sem annars sígur. Þegar við vitum að við höfum ekki næga festu, þá notum við þetta.“

Íhugaði sjálfsvíg vegna verkja

Aðgerðir, þar sem net eru grædd í leggöng til stuðnings, hafa hins verið mjög mikið notaðar í Bretlandi og á árunum 2006 til 2016 fóru tæplega 120 þúsund konur í slíka aðgerð. Samkvæmt gögnum frá NHS, sem The Guardian vísar í, hafa komið upp einhver vandkvæði hjá einni af hverri ellefu þessara kvenna. Á sama tíma tímabili voru gerðar um 6.000 aðgerðir þar sem net sem þessi voru fjarlægð, annað hvort að öllu leyti eða hluta, vegna vandkvæða.

Málið rataði í fréttirnar í Bretlandi á síðasta ári þegar skosk kona, Claire Cooper, sem var mjög kvalin eftir að hafa fengið slíka ígræðslu, stofnaði stuðningshóp fyrir konur í sömu stöðu.

Hún fór að finna fyrir sársauka í leggöngunum þremur árum eftir aðgerðina, en kvensjúkdómalæknirinn hennar taldi það stafa af því að hún hafi farið í legnám nokkru áður. Þegar sársaukinn ágerðist og hún leitaði aftur til kvensjúkdómalæknis sagði hann við hana að hún væri ímynda sér verkina. Hún sagðist hafa upplifað sjálfsvígshugsanir en hafi náð að komast yfir þær barnanna sinna vegna. Hún hafi hins vegar verið svo kvalin að eiginmaður hennar hafi stöðugt þurft að hjúkra henni. Hann hafi eiginlega verið orðinn umsjónarmaður hennar. Þau hjónin höfðu ekki stundað kynlíf í meira en fjögur ár og ástandið var að ganga frá hjónabandinu. Cooper sagðist ekki hissa ef konur í sömu stöðu hefðu tekið líf sitt án þess að vita hver raunveruleg orsök vanlíðanarinnar væri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert