Konur móta nýtt heimskort og styrkja tengsl

Söguhringur kvenna við afhendingu listaverksins Íslandskort sem unnið var af …
Söguhringur kvenna við afhendingu listaverksins Íslandskort sem unnið var af konum af ólíku þjóðerni.

Erlendar konur og íslenskar ætla að breyta heiminum og mála saman listaverkið Nýtt heimskort sem sett verður upp í Gerðubergi í Breiðholti. Allar konur, sem vilja, fá tækifæri til þess að nýta hæfileika sína og túlka í leiðinni eigin sýn á heiminn.

Kennsla í einfaldri punktamálunartækni er í boði fyrir þær konur sem þess óska. Söguhringur kvenna stendur að verkefninu.

Upprunaleg hugmynd mín að listaverkinu tengd heimskortinu er að sýna að heimurinn er ekki eins fyrir öllum. Við erum ekki að mála eina heimsmynd heldur fleiri, frá mismunandi sjónarhornum. Það skiptir máli hvaðan konur koma, hvernig þær líta á heiminn,“ segir Lilianne van Vorstenbosch myndlistarkennari sem leiðir listsköpunarverkefnið Nýtt heimskort Söguhrings kvenna.
Söguhringurinn skapar vettvang kvenna af ólíku þjóðerni til þess að …
Söguhringurinn skapar vettvang kvenna af ólíku þjóðerni til þess að skapa saman, tjá sig í listinni og mynda ómetanlegt tengslanet.


Að sögn Lilianne er Söguhringur kvenna samvinnuverkefni Borgarbókasafns Reykjavíkur og samtaka kvenna af erlendum uppruna, W.O.M.E.N. á Íslandi.

„Söguhringurinn er vettvangur kvenna af ólíku þjóðerni til þess að skapa saman og styðja tengslanet kvenna af erlendum uppruna,“ segir Lilianne.

„Konur sem flytja til Íslands frá útlöndum hafa ekki sömu tengslanet og þær sem eru uppaldar hér á landi. Íslenskar konur hafa myndað tengsl alveg frá æskuárum í gegnum fjölskyldu, skólagöngu og félagslíf eins og til dæmis í saumaklúbbum, kórum og íþróttum. Konur af erlendum uppruna koma inn í nýtt samfélag og þurfa oft að byrja alveg upp á nýtt. Tengslanet sem þær áttu í sínu heimalandi hafa þær skilið eftir. Þrátt fyrir að sambandið hafi haldist við heimalandið hafa konurnar þörf fyrir að byggja upp ný tengsl.“

Allar konur geta tjáð sig í myndum án orða og …
Allar konur geta tjáð sig í myndum án orða og sýnt hvað í þeim býr.


Lilianne segir að íslenskar konur séu hjartanlega velkomnar og hvetur þær til þátttöku í verkefninu.

Sköpun listaverksins sem byggt er á heimskortinu og þemanu Heim, fer fram á Borgarbókasafninu, Menningarhúsi Grófinni. Tveimur vinnustofum er þegar lokið en að minnsta kosti fimm eru eftir. Á morgun laugardag milli kl. 13:30 og 16:30 munu konur mála sína sýn á að vera heima í heiminum – ný heimskort í Grófinni.

„Tvær vinnustofur eru áætlaðar í október og tvær í nóvember og ef það dugar ekki til þess að klára verkið þá hittumst við oftar,“ segir Lilianne. „Fyrir þær sem ekki hafa málað áður er boðið upp á kennslu í einfaldri punktamálunartækni í byrjun hverrar samveru þeim að kostnaðarlausu.“

Hús með bók er heima

Púsl í nýtt heimskort kvenna með mismunandi sjónarhornum.
Púsl í nýtt heimskort kvenna með mismunandi sjónarhornum.


Lilianne segir að með heimskortinu sé verið að túlka hvað það þýði að vera heima og hvar konum finnist þær eiga heima.

„Sumum konum finnst þær vera heima á Íslandi á meðan aðrar upplifa það að heima sé í öðru landi. Ein kona málaði hús með bók á kortið. Það er í hennar huga að vera heima. Önnur kona málar Suður-Afríku því það er hennar uppruni,“ segir Lilianne og bendir á að konur leyfi sér að vera þær sjálfar þegar þær eru heima hjá sér. Þar eru þær ekki í hlutverki innflytjanda eða í hverju öðru því hlutverki sem fólk er sett í. Á heimskortinu er eitt tungumál, að sögn Lilianne. „Allar konur geta tjáð sig í myndum án orða, sýnt hvað í þeim býr og hvað að vera heima í heiminum þýði fyrir þær.“

Æfingamálverk í óróa

Þegar verkið er tilbúið verður það sett upp í kaffistofunni í Gerðubergi. „Það á vel við að setja verkið upp þar. Í Gerðubergi fer fram mikið fjölmenningarstarf. Sjálft listaverkið, Heimskortið, verður sett upp í kaffistofunni. Æfingamálverk kvennanna verða sett í óróa og hengt upp í stigaopi í kaffistofunni sem er á milli hæða.

Lilianne van Vorstenbosch
Lilianne van Vorstenbosch


Lilianne segir að 20 konur hafi mætt í fyrstu vinnustofu Heimskortsins og 15 í þá næstu. „Það eru ekki sömu konurnar sem mæta alltaf. Það er hægt að koma í eitt skipti eða fleiri. Vera allan tímann eða hluta.“ Lilian hvetur allar konur bæði erlendar og íslenskar til þess að taka þátt í Heimskortinu. Deila menningarlegum bakgrunni og styrkja virðingu fyrir mismunandi menningarheimum. Lilianne hefur stýrt tveimur öðrum myndlistarverkefnum Söguhringsins. Það eru Reykjavíkurkort sem prýðir Borgarbókasafnið í Reykjavík og Íslandskort Söguhrings kvenna sem unnið var fyrir Kaffitár. Íslandskortið er notað á kaffihúsum Kaffitárs, á kaffiumbúðum, á bílum og kynningarefni á vegum Kaffitárs. Söguhringurinn á auk þess verk í Borgarbókasafninu, Grófinni sem ber nafnið Tölum saman. Verkið er unnið af konum og skapað úr tölum.

Söguhringur kvenna/The Women's Story Circle, er fésbókarsíða þar sem hægt er að fá allar upplýsingar um Heimskortið og Söguhringinn sjálfan.

„Með Heimskortinu ætla konur að breyta heiminum,“ segir Lilianne sem hvetur konur til þess að mæta og taka þátt í viðburðinum sem er öllum konum opinn og þátttaka ókeypis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert