Mæla með frekari mælingum á 2 efnum

Ákvörðun Umhverfisstofnunar um stöðvun reksturs kísilverksmiðju United Silicon stendur óbreytt …
Ákvörðun Umhverfisstofnunar um stöðvun reksturs kísilverksmiðju United Silicon stendur óbreytt og rekstraraðila er óheimilt að endurræsa ofn verksmiðjunnar nema með skriflegri heimild frá stofnuninni að loknum fullnægjandi endurbótum og ítarlegu mati á þeim. mbl.is/RAX

Um 200 efnasambönd mældust í rannsókn norsku loftrannsóknastofnunarinnar NILU, á loftgæðum við verksmiðju United Silicon í Helguvík, en mikilla lyktaráhrifa hefur gætt frá verksmiðjunni frá því hún var gangsett í nóvember í fyrra.

Í skýrslunni, sem birt hefur verið á vef Umhverfisstofnunnar, segir að ekki sé hægt er að benda á með óyggjandi hætti á að eitthvað eitt efn valdi þeirri lykt sem komið hefur frá verksmiðjunni. NILU leggur þó til að farið verði í frekari mælingar á tveimur efnum, formaldehýði og anhýdríðum.

Skýrslan lýsir mælingum sem gerðar voru inn í og við verksmiðjuna sjálfa en einnig inn í íbúðarhverfi í Reykjanesbæ og var NILU fengin til að skipuleggja mælingar og greina sýni í kjölfar þeirra.

Fáar ábendingar bárust dagana sem sýnum var safnað

Í frétt Umhverfisstofnunnar á vef sínum um málið, segir að mælingunum megi skipta í þrjá hluta og hafi fyrsti hlutinn innihaldið sýni sem tekin voru í íbúabyggð Reykjanesbæjar. Þeim sýnum hafi verið safnað yfir 10 daga tímabil og því gefi niðurstaðan meðalinnihald efnanna fyrir allt tímabilið. Styrkur efnis kunni því að hafa verið hár í stuttan tíma en lægri á öðrum tímum.

Í skýrslunni kemur fram að engin efnasambönd séu í óvenjulega háum styrk fyrir íbúabyggð. „Umhverfisstofnun bendir á að á þessum dögum sem sýninu var safnað bárust fremur fáar ábendingar hvern dag sem bendir til þess að þá daga hafi ekki gætt verulegra lyktaráhrifa,“ segir í fréttinni.

Annar hlutinn innihélt skammtímasýni sem tekin voru daglega í 12 daga frá endurgangsetningu verksmiðjunnar. „Sýnin voru tekin efst í síuhúsi þar sem áætlað er að mesti styrkur sé í útblæstri verksmiðjunnar. NILU dregur þá almennu ályktun á grunni þessara 12 sýna að engin skaðleg efni hafi fundist í sýnunum í þeim styrk að þau gætu haft skaðleg áhrif á íbúa nærliggjandi svæða.“

Vísbendingar um formaldehýð sem ekki var mælt

Ákveðnar vísbendingar hafi hinsvegar verið um að formaldehýð, sem ekki var mælt, gæti verið til staðar í útblæstri frá verksmiðjunni. Formaldehýð er mjög rokgjarnt lífrænt efnasamband sem ekki sé hægt að mæla með þeirri tegund mælitækja sem NILU notaði.

„Þann 15. ágúst stóð Umhverfisstofnun því fyrir mælingu á formaldehýði í íbúabyggð og í útblæstri verksmiðjunnar. Mældist efnið þá við greiningarmörk í útblæstri en fannst ekki í íbúabyggð. NILU leggur til að  frekari mælingar á formaldehýði fari fram.“  

Þriðji hluti mælinganna innihélt sýni sem tekin voru í ofnhúsi, inni í síuhúsi og utan á rjáfri síuhúss. „NILU dregur sömu ályktun á grundvelli þessara sýna að engin skaðleg efni hafi fundist í sýnunum í þeim styrk að þau gætu haft skaðleg áhrif á íbúa nærliggjandi svæða. Talsvert fannst þó af lífrænu anhýdríði í síuhúsi sem getur valdið lykt og tímabundinni ertingu í öndunarvegi og augum. Anhýdríð eru erfið í mælingu og því er ekki komin fullvissa um styrk þeirra. NILU leggur jafnframt til að gerðar verði frekari mælingar á þessu efni.“

Ákvörðun Umhverfisstofnunar um stöðvun reksturs Sameinaðs Sílikons hf. standi því óbreytt og rekstraraðila sé því óheimilt að endurræsa ofn verksmiðjunnar nema með skriflegri heimild frá stofnuninni að loknum fullnægjandi endurbótum og ítarlegu mati á þeim.

mbl.is