FÍN vísar kjaradeilu til ríkissáttasemjara

Félag íslenskra náttúrfræðinga (FÍN) hefur vísað kjaradeilu sinni við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs til ríkissáttasemjara en félagið hefur átt í viðræðum við samninganefnd ríkisins (SNR) um endurskoðun kjarasamnings aðila frá því í lok ágúst sl.

Þetta kemur fram á vef félagsins.

Þar segir að helstu kröfur félagsins séu: 

  • Bætt kjör í stað lakara lífeyriskerfis.
    • Félagið gerir kröfu um að staðið verði við gefin loforð vegna 7. gr. samkomulags um breytingu á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna.
    • Leiðrétta þarf launakjör nýráðinna ríkisstarfsmanna þannig að þau verði sambærileg við almenna markaðinn. 
    • Brýnt er að taka fyrstu skref í að leiðrétta launakjör þessa hóps. 
    • Ótækt er að þessi hópur verði látinn bíða í 6-10 ár eftir launaleiðréttingu, þar sem almenni markaðurinn hefur nú þegar fengið bætt lífeyriskjör.
  • Launahækkanir á samningstímabilinu.
    • Launahækkanir séu ekki lakari en ríkið hefur nú þegar samið við aðra hópa.
    • Að lágmarkslaun verði 400.000 kr. frá og með 1. júní 2017 og taki hækkunum á samningstímabilinu.
    • Að lífaldurstengingar í launatöflum félagsins verði afnumdar, þar sem um ómálefnalega mismunun er að ræða.
    • Að menntun sé metin til launa.
  • Láglaunastefna löguð á einstökum stofnunum ríkisins.
    • Tekið verði sérstaklega á láglaunasetningu einstakra starfa innan ríkisstofnana, lögð áhersla á að styrkja og þróa launakerfið á stofnunum ríkisins.

Þá segir, að samninganefnd ríkisins hafi ekki orðið við neinum kröfum félagsins en í stað boðið félaginu framlengingu á núverandi samningi fram til marsloka 2019, sem þýði 0% launahækkun. Því hafi stjórn FÍN ákveðið að vísa kjaradeilu sinni við ríkið til ríkissáttasemjara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert