Þingmaður lýsir áreitni: „Gefðu frænda koss“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Golli

„Ég er ekki ein. Við höfum held ég flestar konur margar svona sögur að segja,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, í facebookfærslu. Í færslunni lýsir hún nokkrum atvikum þar sem hún hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni en fjölmargar konur um heim allan hafa stigið fram um helgina og sagt frá reynslu sinni.

Þórhildur Sunna segir að um áramót, þá fjórtán ára gömul, hafi gestir verið í heimsókn. Kunningi foreldra sinna hafi þrábeðið hana að setjast „í fangið á frænda“. Hún tekur fram að maðurinn sé ekki frændi hennar. Hún vildi ekki sitja hjá honum. „Hann sagði „gefðu frænda knús“ og faðmaði mig. Hann sagði „gefðu frænda koss“ og kyssti mig.“

Ósæmileg hegðun sundkennara

Hún greinir líka frá því að fimmtán ára gömul, í skólasundi, hafi sundkennarinn hennar gert lítið úr því að hún gæti ekki synt vegna krampa í fótleggnum. „Hann sagði að ég þyrfti hvort eð er ekki að synda, gæti bara flotið með þessi brjóst framan á mér.“ Hún segir að þetta hafi engin eftirmál haft þótt maðurinn hefði „margoft hagað sér ósæmilega“ við fleiri nemendur.

Frétt mbl.is: Var kyn­ferðis­lega áreitt af leik­stjóra

Þórhildur greinir frá áreitni sem hún varð fyrir í bekkjarferð í Danmörku, þar sem hún var meðal annars slegin fast á rassinn í regnblautum buxum. „Ég táraðist af sársauka,“ segir hún. Þrír drengir hafi áreitt nokkrar bekkjarsystur ítrekað. „Gripu í okkur, klipu okkur, slógu og þvinguðu á okkur kossa.“ Hún segir að þegar þær hafi greint kennurum sínum frá þessu hafi þeim verið meinað að fara á veitingasvæðið á hótelinu þar sem „við gætum „komið okkur aftur í vandræði““.

Hún segir að í ótal skipti hafi hún verið klipin í rassinn eða flengd fyrir tvítugt, nánast í hvert einasta skipti sem hún fór út að skemmta sér. Eftir tvítugt hafi hún ítrekað orðið fyrir kynferðislegu áreiti í Hollandi, þar sem hún lagði stund á nám.

Segir kærastanum hafa staðið á sama

Tuttugu og tveggja ára gömul hafi hún mætt í klæðlitlum búningi í búningapartí „og fannst kunningja mínum það gefa honum tilefni til þess að flengja mig fast og segja nokkur vel valin orð um að ég væri að biðja um þetta í þessum fötum. Ég lét mér nægja að kalla hann fífl, ég vildi ekki skemma partíið með einhverju veseni enda löngu orðin vön að það þýddi ekkert“, skrifar þingmaðurinn og tekur fram að kærasta sínum þáverandi hafi einnig staðið á sama. Ekki væri við öðru að búast í þeim fötum sem hún hefði valið sér.

Frétt mbl.is: Telma áreitt af þremur mönnum

Áreitt þegar leitað var að Birnu

Loks lýsir Þórhildur því að þegar leitin að Birnu Brjánsdóttur stóð sem hæst, fyrr á árinu, hafi hún upplifað vonda strauma frá manni niðri í miðbæ. „Mér leið illa nálægt honum og fannst hann gefa frá sér óþægilega strauma. Ég sagði honum að mér liði illa yfir hvarfi Birnu. Ég væri óörugg og bað hann að fara heim á undan mér. Það væri ekkert persónulegt en myndi láta mér líða betur.“

Hún segir að maðurinn hafi ekki gefið sig og beðið hana að „koma í sleik“. Hún hafi tekið leigubíl heim þótt hún byggi mjög nálægt til þess að maðurinn kæmist ekki að því hvar hún ætti heima. „Viðbrögðin voru blendin þegar ég sagði frá. Sumum fannst þetta lítið mál en öðrum fannst þetta ólíðandi.“

Þórhildur Sunna segir að atvikin sem hún hefur talið upp séu bara lítið brot af þeim óteljandi skiptum þar sem menn hafi freklega gengið á líkama hennar; „klipið í hann og slegið, gripið í brjóst, rass og jafnvel píku án míns samþykkis, án þess jafnvel að þekkja mig nokkurn skapaðan hlut. Þessi veruleiki og viðmótið sem blasti við mér þegar ég sagði frá varð valdur að reiði og vanlíðan lengi vel í lífi mínu,“ skrifar hún.

„Talið um samþykki og mörk“

Hún segist telja að flestar konur hafi svona sögur að segja og tekur fram að margar hafi miklu verri sögur að segja en hún. Karlmenn hafi líka sögur í þessum dúr að segja.

Hún beinir orðum sínum til karla og biður þá að hlusta vandlega þegar konur krefjast þess að kynferðisbrot séu tekin alvarlega. „Mig langar að biðja ykkur um að tala við vini ykkar, pabba ykkar og bræður, frændur ykkar og syni og alla aðra sem vilja tala við ykkur um samþykki. Um mörk. Um mannhelgi allra. Hugurinn og hugrekkið hefur borið okkur hálfa leið en herslumuninn vantar.

Takið frumkvæði. Hlustið. Talið um tilfinningar. Talið um samþykki og mörk. Hafnið áreiti og ofbeldi. Sannleikurinn gerir okkur frjáls. Líka gerendur. Leiðréttum það sem aflaga hefur farið í samskiptum okkar. Gerum þetta saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert