Grímuklædd á fund stjórnmálaflokkanna

Nemendur sviðslistadeildar komu við á kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins og afhentu þar …
Nemendur sviðslistadeildar komu við á kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins og afhentu þar grjót sem hrunið hefur úr þaki húsnæðis skólans. mbl.is/Golli

Nemendur og kennarar Lista­há­skól­ans hafa í dag heimsótt kosningaskrifstofur framboðslistanna í Reykjavík til að vekja, í aðdraganda þingkosninganna, athygli á húsnæðisvanda skólans. Grímu- og gallaklæddur hópurinn heimsótti m.a. kosningaskrifstofur Pírata og Sjálfstæðisflokksins.

„Við vorum að gera grein fyrir því ástandi sem ríkir í Listaháskólanum og allt um lykjandi og aðkallandi húsnæðisvanda skólans,“ segir Ilmur Dögg Gísla­dótt­ir, kynn­ing­ar­stjóri Lista­há­skól­ans. Ástandið sé sérstaklega slæmt hjá sviðslistadeildinni við Sölvhólsgötu, sem einmitt var þarna á ferð. „Ástæðan fyrir að þau eru í göllunum vísar í hvað húsnæðið er óheilbrigt. Það hefur verið greind mygla þar og nemendur verða veikir.“

Hóparnir lásu upp yfirlýsingu í heimsókn sinni. „Auk þess sem við gáfum öllum stjórnmálaflokkunum grjót sem hefur molnað úr þakskegginu á Sölvhólsgötu sem tákn um þessar molnandi undirstöður. Okkur var tekið vel alls staðar og á okkur var hlustað, þannig að við erum hæfilega bjartsýn á framhaldið.“

Hús­næðismál Listaháskólans hafi verið óá­sætt­an­leg frá stofn­un og því vilji nem­end­ur og kenn­ar­ar vekja at­hygli á, enda hafi þeir fengið nóg. „Mark­miðið var að sam­eina lista­skóla á fram­hald­sskóla­stigi í há­skóla und­ir einu þaki. Það var mark­miðið 1999 og okk­ur finnst kom­inn tími til þess að skól­inn sé sam­einaður,“ sagði Ilm­ur.

„Við telj­um að kraft­ur­inn verði enn þá meiri með því að kom­ast und­ir eitt þak.“

Einnig var komið við á kosningaskrifstofu Pírata og lesin upp …
Einnig var komið við á kosningaskrifstofu Pírata og lesin upp yfirlýsing fyrir frambjóðendur. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert