Skýrsla vegna plastbarkamáls kynnt

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Skýrsla nefndar í plastbarkamálinu verður kynnt í Norræna húsinu á mánudaginn. Þetta kemur fram á vefsíðu Landspítalans.

Dr. Páll Hreinsson, dómari við EFTA-dómstólinn, mun kynna helstu niðurstöður nefndarinnar. Eftir það mun hann sitja fyrir svörum ásamt Maríu Sigurjónsdóttur, sérfræðingi í geðlækningum við réttargeðdeildina Dikemark í Noregi.

Auk þeirra er Georg Bjarnason, krabbameinslæknir og vísindamaður við Sunnybrook-stofnunina í Toronto í Kanada, í nefndinni.

Fram kemur á vefsíðu Landspítalans að um óháða utanaðkomandi sérfræðinga sé að ræða, sem forstjóri Landspítalans og rektor Háskóla Íslands skipuðu.

„Nefndinni var m.a. ætlað að veita rökstutt álit á því hvort ákvarðanir íslenskra heilbrigðisstarfsmanna á Landspítala í tengslum við málið hafi verið í samræmi við lög, reglur og verkferla. Þá var það hlutverk nefndarinnar að rannsaka lagalegan og siðferðilegan grundvöll fyrir þátttöku íslenskra lækna í ritun og birtingu greinar um efnið í vísindatímaritinu Lancet og fyrir málþingi sem var haldið í HÍ sumarið 2012.“

Skýrslan verður kynnt á milli klukkan 14 og 15.30 og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert