Blekktur til að breyta tilvísun

Páll Hreinsson formaður kynnti niðurstöður rannsóknarnefndarinnar.
Páll Hreinsson formaður kynnti niðurstöður rannsóknarnefndarinnar. mbl.is/​Hari

Skurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson var blekktur af Paolo Macchiarini í aðdraganda plastbarkaaðgerðar sem Ítalinn, læknir á Karolinska sjúkrahúsinu í Svíþjóð, gerði á Erítreumanninum Andemariam Teklesenbet Beyene, sjúklingi Tómasar. Tómas, sem sætir töluverðri gagnrýni í skýrslunni, hafði farið þess á leit við Karolinska-sjúkrahúsið að fá faglegt mat sérfræðinga þess á því hvort laserskurður á krabbameini í lunga eða uppskurður væri mögulegur.

Þrátt fyrir þessa beiðni gekk Macchiarini, sem var undir miklum þrýstingi um skjótan árangur í starfi, beint í að sannfæra Andemariam um að það eina í stöðunni væri að hann færi í plastbarkaaðgerð, sem enginn vísindalegur grundvöllur reyndist að baki.

Fram kemur að Tómas hafi verið blekktur til að breyta texta í tilvísun Andemariams undir því yfirskyni að skjölin væru ætluð siðanefnd, til að fá leyfi fyrir aðgerðinni. Markmiðið var að sýna fram á að plastbarkaaðgerðin væri eini valkosturinn en fram kemur í skýrslunni að slík aðgerð hefði aldrei verið gerð á neinni manneskju í heiminum. Siðanefndinni sænsku bárust aldrei þau skjöl en sænska teymið, sem var undir forystu Macchiarini, talaði um tilvísunina frá Tómasi sem hindrun, sem ryðja þyrfti úr vegi.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar um plastbarkamálið svokallaða, en nefndin skilaði af sér í dag og kynnti niðurstöður sínar á fundi í Norræna húsinu. Skýrslan er á þriðja hundrað blaðsíðna, auk viðauka, en nefndin var skipuð fyrir rúmu ári af forstjóra Landspítala og rektor Háskóla Íslands.

Birgir Jakobsson, landlæknir, var forstjóri Karolinska þegar aðgerðin var gerð.
Birgir Jakobsson, landlæknir, var forstjóri Karolinska þegar aðgerðin var gerð. mbl.is/Ófeigur

Hefði átt að óska upplýsinga

Fram kemur að Tómas hafi ekki vitað að til stæði að græða í sjúkling sinn plastbarka. Í niðurstöðum nefndarinnar kemur fram að „aðgæslusömum lækni hefði mátt vera ljóst af lestri þeirra bréfa sem Tómasi höfðu borist frá læknum á Karolinska háskólasjúkrahúsinu að verið var að ræða um óhefðbundna og óvenjulega aðgerð á barkanum.“ Eðlilegt hefði verið af Tómasi að óska frekari upplýsinga. Hins vegar segir: „Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að Tómasi hafi mátt vera ljóst að hin mögulega plastbarkaaðgerð skorti öll nauðsynleg opinber leyfi og yrði því í andstöðu við sænsk lög og viðteknar siðareglur á þessu sviði.“

Nefndin bendir í skýrslu sinni á að þegar læknir hafi vísað sjúklingi til meðferðar á erlendu sjúkrahúsi hafi hann takmarkamaðar heimildir til afskipta af þeirri meðferð sem sjúklingurinn hlýtur. „Siðferðilega ber honum hins vegar að koma með athugasemdir telji hann óforsvaranlega staðið að meðferð sjúklings.“

Allir þrír látnir

Andemariam, sem var með æxli í lunga, er látinn, líkt og hinir tveir sjúklingarnir sem gengust undir sambærilega meðferð hjá teymi Macchiarini. Fram kom í kynningu Páls Hreinssonar, formanns nefndarinnar, að ekki sé útilokað að Andemariam hafi staðið höllum fæti og haft litla möguleika á að neita ósk Tómasar um að gangast undir þær vísindarannsóknir sem á honum voru gerðar á Landspítala í tilefni af vísindagrein sem birtist í vísindaritinu Lancet árið 2011. Tekið skal fram að Tómas vísaði þessum viðhorfum nefndarinnar á bug.

María Sigurjónsdóttir, geðlæknir við Háskólasjúkrahús Óslóar í Noregi, og Páll …
María Sigurjónsdóttir, geðlæknir við Háskólasjúkrahús Óslóar í Noregi, og Páll Hreinsson, dómari við EFTA-dómstólinn í Lúxemborg. Í nefndinni var einnig Georg A. Bjarnason, krabbameinslæknir og vísindamaður hjá Sunnybrook Health Sciences Entre í Toronto, Kanada. mbl.is/​Hari

Fram kemur í skýrslunni að þeim Tómasi hafi verið vel til vina og að hann hafi hjálpað Andemariam, sem sóttist eftir landvistarleyfi, langt út fyrir skyldur sínar sem læknir.

Einnig kemur fram í skýrslunni að Tómas hafi verið undir miklu álagi á þeim tíma, vorið 2011, sem hann stóð í bréfaskriftum við Macchiarini um þá meðferð sem Andemariam átti að gangast undir. Hann hafi treyst læknum Karolinska og því ekki gert athugasemdir við aðgerðina. Honum hafi þó ekki verið ljóst, fyrr en aðgerðin var hafin – en Tómas opnaði brjósthol mannsins – að til stæði að græða í hann plastbarka. „Í viðtölum við nefndina hefur Tómas hafnað því að honum hafi í reynd verið ljóst að Macchiarini hafi verið að velta fyrir sér gervibarkaaðgerð, þar sem hann hefði verið undir einstaklega miklu starfsálagi á þessum tíma,“ segir í skýrslunni.

Hættu að svara Tómasi

Í skýrslunni er komið inn á það af hverju Tómas tók þátt í aðgerðinni. Um það atriði segir að í fyrsta lagi að hann hafi skorið hann upp áður og í öðru lagi átti hann að sjá um eftirmeðferð sjúklingsins á Landspítalanum. Fram kemur líka að eftir innritun sjúklingsins í Svíþjóð hafi samband rofnað á milli Tómasar og sænska læknateymisins. Teymið hafi hætt að svara bréfum Tómasar. Íslenskir læknar hafi ekki verið hafðir með í ráðum þegar aðgerðin var undirbúin. „Það er ekki fyrr en Sjúkratryggingar Íslands gera sænska læknateyminu ljóst að þær taki ekki þátt í því að greiða fyrir tilraunaaðgerðir að samband næst aftur við sænsku læknana,“ segir í skýrslunni.

Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir á Landspítalanum.
Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir á Landspítalanum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Eins og áður segir var birt vísindagrein um aðgerðina á Andemariam í vísindaritinu Lancet árið 2011, að undangengnum rannsóknum á Landspítalanum. „Blóðsýnatökur, CT myndatökur, sveigjanlegar berkjuspeglanir og spírometría voru gerðar hjá íslenska sjúklingnum á Landspítala í ágúst til október 2011“ segir í skýrslunni. Þessar rannsóknir voru framkvæmdir að ósk sænska teymisins.

Fram kemur að rannsóknirnar hafi haft í för með sér inngrip fyrir sjúklinginn. Þá er talið upp að afla hefði þurft samþykkis sjúklingsins, leyfis vísindasiðanefndar og leyfis Persónuverndar vegna þessara rannsókna. Það var ekki gert. „Tómasi Guðbjartssyni hafi átt að vera ljóst að tilefni hafi verið til að kanna hvort um leyfisskylda rannsókn var að ræða þar sem verið var að gera rannsóknir á íslenska sjúklingnum á Landspítala í tilefni af ritun og birtingu umræddrar vísindagreinar,“ segir í skýrslunni. Nefndin lýsir því áliti sínu að ekkert bendi til þess að Tómas hafi sniðgengið þessar reglur af ásetningi.

Talaði veikur á málþingi

Eitt af því sem nefndinni bar að rannsaka var lagalegur og siðferðilegur grundvöllur fyrir málþingi um plastbarkaaðgerðina síðla sumars 2012. Málþingið var skipulagt af Háskóla Íslands. Fram kemur að fjölmiðlamenn hafi verið ráðnir af Harvard Bioscience Inc., framleiðanda plastbarkans, til að mynda málþingið í auglýsingaskyni. Fram kemur að Andemariam hafi verið mjög veikur í aðdraganda málþingsins.

Fjölmargir heilbrigðisstarfsmenn voru á fundinum í gær. Á þessari mynd …
Fjölmargir heilbrigðisstarfsmenn voru á fundinum í gær. Á þessari mynd má sjá glitta í Óttarr Proppé, starfandi heilbrigðisráðherra. Haraldur Jónasson / Hari

Í skýrslunni er því velt upp hvort sjúklingurinn hafi verið dreginn fram í fjölmiðla til auglýsingar á plastbarkaaðgerðinni. Við því er skýrt svar. „Nefndin telur að starfsmenn Háskóla Íslands hafi tekið þátt í að draga sjúklinginn fram í fjölmiðlum án þess að taka nægjanlegt tillit til hans sem sjúklings og nema við Háskóla Íslands.“

Þá segir að Tómas hafi sem læknir sjúklingsins átt að gera sér grein fyrir að sjúklingurinn væri „alls ekki í þeirri aðstöðu að geta neitað óskum hans um að tala við fjölmiðla, hvort heldur sem sjúklingurinn var sammála slíkri fyrirspurn eða ekki.“ Við þetta er bætt að sjúklingurinn hafi á þessum tíma verið háður bæði Landspítala um eftirmeðferð sína og Háskóla Íslands um nám sitt. Því hafi hann verið í afar slæmri stöðu til að geta neitað óskum þeirra um að koma fram í fjölmiðlum eða veita upplýsingar til fjölmiðla.

Villandi ummæli í Kastljósi

Loks segir í skýrslunni að Tómas hafi viðhaft villandi ummæli í Kastljósi, þegar hann hafi sagt að tveimur dögum fyrir aðgerðina „þá tókum við beinmerg úr mjaðmakambi sjúklingsins til þess að ná í stofnfrumur“. Fram kemur að Tómas hafi ekki verið formlegur þátttakandi í rannsókninni. „Þótt prófessorar geti óneitanlega þurft að einfalda mál sitt fyrir almenningi þegar þeir koma fram í fjölmiðlum verða þeir engu að síður að gæta þess að eigna sér ekki störf annarra. Þessi villandi frásögn af tilraunaaðgerðinni olli því síðan að í opinberri umræðu varð óljóst hver ábyrgð Tómasar var við framkvæmd aðgerðarinnar, þegar fréttir bárust af því að öll opinber leyfi hefðu skort fyrir framkvæmd hennar.“

Húsfyllir var á fundinum.
Húsfyllir var á fundinum. Haraldur Jónasson / Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert