Skýrsla Hannesar væntanleg á mánudag

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði. mbl.is/Ómar

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, ætlar að skila af sér skýrslu um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins næstkomandi mánudag.

Skýrslan er í kringum 315 blaðsíður og er á ensku.

Hannes Hólmsteinn hefur unnið að skýrslunni í þrjú ár en vinnsla hennar hefur dregist á langinn. Hún átti upphaflega að koma út árið 2015 samkvæmt samningi Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Í lok síðasta mánaðar kom fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Píratans Björns Leví Gunnarssonar að skýrslan væri væntanleg innan tíðar.

Þar kom einnig fram að greiddar hafi verið 7,5 milljónir króna vegna verksins í samræmi við samninginn. 2,5 milljóna króna greiðsla er áætluð við verklok. 

Hannes Hólmsteinn mun útskýra í bréfi til fjármálaráðuneytisins hvers vegna …
Hannes Hólmsteinn mun útskýra í bréfi til fjármálaráðuneytisins hvers vegna tafir hafa orðið á skýrslunni. mbl.is/Golli

Ónauðsynlegt að beita hryðjuverkalögum

Í samtali við mbl.is segir Hannes Hólmsteinn að skýrslan sé talsvert stærri en uppphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Hann ætlar að útskýra það í bréfi til fjármálaráðuneytisins þegar þar að kemur hvers vegna tafirnar hafa orðið.

„Ég leiði rök að því að það hafi verið alveg ónauðsynlegt af Bretum að beita hryðjuverkalögum á Íslendinga og reyni að skýra hvers vegna þeir gerðu það. Ég reyni líka að skýra hvers vegna Bandaríkjamenn sátu hjá og hjálpuðu okkur ekki þegar á reyndi,“ segir Hannes Hólmsteinn um skýrsluna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina