„Aðblásturinn sjarmerandi“

Ana Stanicevic fékk áhuga á íslensku og norrænum tungumálum sem ung stúlka í Serbíu. Hún hefur nú búið hér á landi í sex ár og kennir erlendum nemendum íslensku í Hí sem stundakennari. Hún segir margt vera heillandi og sérstakt við íslenskuna t.a.m. aðblásturinn þegar borinn er fram sérhljóði á undan samhljóðaklasa.

Ana sem er doktorsnemi í menningarfræðum hefur litlar áhyggjur af framtíð íslenskunnar. Bæði séu bókmenntirnar sterk stoð en nefnir einnig erlendan áhuga á tungumálinu. „Það er ástríðufullt fólk út um allt sem lærir þetta tungumál, sem skrifar á þessu tungumáli og sem les á þessu tungumáli. Þannig að ég held að þetta tungumál eigi eftir að lifa lengi og vel,“ segir Ana sem sjálf talar um 10 tungumál. Næst á dagskrá hjá henni í tungumálanáminu er að hella sér í finnskunámið. „Ég var ekki búin með hana, ég verð að kíkja á hana aftur.“

mbl.is ræddi við Önu í tilefni af Degi íslenskrar tungu í Grófarhúsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert