Varað við snjóflóðahættu með SMS

Við Ólafsfjarðarmúla.
Við Ólafsfjarðarmúla. Ljósmynd/Vegagerðin

Vegagerðin hefur komið á fót viðvörunarkerfi með SMS-skeytum um snjóflóðahættu til vegfarenda sem leið eiga um Ólafsfjarðarmúla. Hægt er að skrá símann sinn hjá Vegagerðinni og fær viðkomandi þá sent SMS-skeyti við öll fjögur viðvörunarstigin. Þegar varað er við, hættustigi lýst, vegi lokað og þegar opnað er eftir lokun.

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Þar segir enn fremur, að prófanir hafi farið fram í vor og að þær hafi gefist vel.

Nú hefur verið ákveðið að gefa þeim vegfarendum sem þess óska, að gerast áskrifendur að þessum viðvörunum.  Sérstaklega er því beint til þeirra sem fara oft um veginn vegna atvinnu sinnar, skólasóknar eða af öðrum ástæðum að nýta sér þessar viðvaranir, að því er Vegagerðin segir.  

Um er að ræða eftirfarandi stig:

A:  Varað er við snjóflóðahættu á næstu klukkustundum.
B:  Lýst yfir óvissustigi, sem þýðir að snjóflóðahætta er viðvarandi og vegfarendur hvattir til að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.
C:  Lýst yfir hættustigi, veginum lokað.
D:  Hættustigi aflýst og vegurinn opinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert