Krafa um 300 milljónir „fráleit“

Bíldshöfði 18. Þar eru meðal annars seldir flugeldar.
Bíldshöfði 18. Þar eru meðal annars seldir flugeldar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Krafa gerðarþola um 300 milljón króna tryggingu er fráleit,“ segir Lúðvík Örn Steinarsson, lögmaður eigenda meirihluta eigna í húsnæði við Bíldshöfða 18. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu féllst í morgun á að setja lögbann á fyrirhugað gistiskýli Útlendingastofnunar. RÚV greindi fyrst frá.

Það voru eigendur fjórtán fyrirtækja í húsnæðinu sem fór fram á lögbannið. Útlendingastofnun fór fram á að lagðar yrðu 240 milljónir króna fram í tryggingu og leigusalinn fór fram á 60 milljónir. Lúðvík segir að upphæðirnar sem farið var fram á væru fráleitar þegar litið væri til þess að um væri að ræða 12 mánaða fyrirhugaðan leigusamning í iðnaðarhúsnæði. Til stóð að hýsa 70 hælisleitendur í húsnæðinu. Trygging er hugsuð til að bæta gerðarþola tjón ef lögbannið heldur ekki fyrir dómstóli.

Sýslumaðurinn fór fram á að eigendurnir fjórtán lögðu samtals fram fimm milljónir króna í tryggingu. Það hafa þeir þegar gert, að sögn Lúðvíks, og hefur lögbannið því tekið gildi. „Mitt fólk unir þeirri tryggingu sem fram var sett,“ segir hann.

Lúðvík segir að gerðarbeiðendur, eigendurnir, muni höfða mál til staðfestingar lögbanninu. Þeir hafi viku til þess. Héraðsdómur muni, að þeirra ósk, gefa út réttarstefnu vegna málsins. Gagnaðilar fái frest til að skila greinargerðum og það sé svo undir dómara eða dómstólum komið hvenær málið verði tekið fyrir.

Lúðvík segir að umbjóðendur hans séu mjög ánægðir með niðurstöðuna. „Þeir telja að þetta kristalli þá stöðu og þau réttindi sem þau hafa haldið fram í málinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert