Öll starfsemi Pressunnar stöðvuð

Öll starfsemi Pressunnar hefur verið stöðvuð.
Öll starfsemi Pressunnar hefur verið stöðvuð. mbl.is/Skjáskot af vefsíðu Fótspors

Útgáfa þó nokkurra blaða, sem eru innan félagsins Pressunnar, hefur verið stöðvuð og ekki er fyrirséð hvort eða hvenær blöðin koma út á ný. Allur rekstur félagsins hefur verið stöðvaður og báðum starfsmönnum þess sagt upp störfum. Blöðin sem um ræðir eru m.a. vikublaðið Akureyri, landshlutablöð sem komið hafa út hálfsmánaðarlega síðustu misseri og sjávarútvegsblaðið Aldan.

„Það er nú kannski ekki alveg þannig að búið sé að leggja þau niður, heldur er það þannig að við höfum stöðvað allan rekstur sem fram fer í félaginu Pressan, til þess að félagið sé ekki að safna frekari skuldum sem ólíklegt er að það geti staðið skil á, prentkostnaði, umbrotskostnaði eða öðru slíku,“ segir Ómar R. Valdimarsson, stjórnarformaður Pressunnar, í samtali við mbl.is.

Stofnandinn vill taka við blöðunum

Ámundi Ámundason hefur komið að útgáfu landshlutablaðanna frá stofnun þeirra árið 2008. Hann segir að fyrirtæki hans, Fótspor ehf., hafi gert nýrri stjórn Pressunnar tilboð í rekstur blaðanna, með það að markmiði að halda útgáfunni áfram.

Ómar R. Valdimarsson, stjórnarformaður Pressunnar.
Ómar R. Valdimarsson, stjórnarformaður Pressunnar. Ljósmynd/Ásgeir Ásgeirsson

„Ég hef gefið þessi blöð út síðan árið 2008 og alltaf með hagnaði,“ segir Ámundi í samtali við mbl.is. „Mín staða er í dag að ég er að gera þeim tilboð, að Fótspor ehf. fái að taka aftur yfir blöðin og gefa þau út. Ég er búinn að senda þeim tilboð, en ég veit ekkert hvernig það endar.“

Hann segist alls ekki vera búinn að gefast upp. „Það er betra að ég fái þetta aftur, fyrir sanngjarnt og gott verð, heldur en að blöðin hætti að koma út. Ég yrði rosalega þakklátur ef ég fengi að reka þetta aftur sjálfur. Það yrði skemmtilegt.“

Mikilvægt sé að útgáfan stöðvist ekki of lengi. „Þetta er rosa mikil tímapressa. Það má ekkert láta þetta stoppa lengi, þá er miklu erfiðara að starta þessu aftur, svo ég vona að hann svari mér í dag og í síðasta lagi á morgun.“

Pressan verði að fá sannvirði

Ómar segir að aðstandendur blaðanna og í raun allir sem áhuga hafi, geti gert tilboð og tekið blöðin yfir.

„Þeir bara kaupa það á eðlilegu verðmæti og þá geta þeir haldið áfram rekstrinum. Það er öllum til hagsbóta að það sé gengið frá því, ef það kemur eitthvað skynsamlegt tilboð,“ segir Ómar og segir að lesendur blaðanna myndu eflaust fagna því að þau kæmu áfram út.

„Ekki vil ég vera maðurinn sem bregður fæti fyrir rekstur fjölmiðla á Íslandi,“ bætir Ómar við að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert