Sagt að þær verði bara að þola þetta

Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt í stjórmálafræði við Háskóla Íslands.
Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt í stjórmálafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Friðrik Tryggvason

„Það eru nokkur hundruð konur komnar inn í hópinn og verið er að undirbúa áskorun sambærilega við þá sem stjórnmálakonur hafa sent frá sér. Undirskriftasöfnun er í gangi og verið að safna sögum um það með hvaða hætti kynferðislegt áreiti birtist í vísindasamfélaginu.“ Þetta segir Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is en hún er annar stofnandi hóps á samfélagsmiðlinum Facebook þar sem hundruð kvenna sem starfa í vísindasamfélaginu á Íslandi hafa rætt um kynferðislegt ofbeldi og áreitni innan þess. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag.

„Ungir vísindamenn, einkum konur, eiga oft frama sinn í vísindasamfélaginu undir því kominn að vera valdir inn inn í rannsóknarhópa og komast áfram á grundvelli einhvers mats sem eldri vísindamenn, sem eru gjarnan karlar, geta haft áhrif á og notað þannig sitt vísindalega vald til þess að reyna að þvinga fram kynferðislega greiða. Síðan er hitt sem er þessi áreitni í gegnum kennslukannanir þar sem mjög margar hafa fengið óviðeigandi athugasemdir um útlit, klæðaburð og framkomu sem eru settar fram í skjóli nafnleysis og geta haft mikil andleg áhrif á líðan kvenna í skólastofunni.“

Vantar úrræði eða að þau séu kynnt betur

Gert er ráð fyrir að yfirlýsingin verði send á fjölmiðla fyrir helgi og ennfremur að sögur kvenna í vísindasamfélaginu verði einnig birtar á næstunni með hliðstæðum hætti og í tilfelli stjórnmálakvenna. Samnefnarinn, hvort sem um er að ræða vísindasamfélagið, listasamfélagið eða stjórnmálin, er að um er að ræða einstaklinga í valdastöðum sem geta í krafti hennar haft mikil áhrif á frama þeirra sem fyrir áreitninni verða. „Þarna er um að ræða fólk sem getur opnað öðrum leiðir inn í stór verkefni hvort sem það eru til dæmis rannsóknarverkefni eða stór hlutverk.“

Hafa verði einnig í huga að þeir sem fyrir þessu verða séu að vinna að ástríðunni sinni. „Það að taka þá áhættu að verða útskúfað úr þessu samfélagi, ekki aðeins að missa vinnuna heldur einnig að taka þá áhættu að geta ekki unnið við það sem skiptir þig máli. Feril sem viðkomandi er búinn að verja mörgum árum í að byggja upp til að mynda í gegnum margra ára nám.“ Vandamálið sé líka að þó alls konar úrræði séu til í dag til þess að bregðast við slíkum aðstæðum til að mynda innan Háskóla Íslands þá segir Silja að svo virðist sem þau séu hins vegar lítt þekkt og ekki alltaf beitt.

Hætt verði að líta framhjá vandamálinu

„Konur sem lenda í einhverju svona og spyrja hvernig þær eiga að bregðast við því fá jafnvel bara þau skilaboð að þær verði bara að þola þetta. Þannig að það er eitt af því sem við erum að gera kröfu um er að þessar leiðir verði stofnaðar þar sem þær eru ekki til og að þær verði vel kynntar þar sem þær eru til,“ segir Silja ennfremur. Þannig að jafnvel þó fólk ákveði að bregðast við kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi þrátt fyrri þá áhættu sem það geti falið í sér þá viti það oft á tíðum ekki hvernig það á að gera það. Málið snúist einnig um að vekja athygli á umfanginu.

„Þetta snýst líka um að skapa samstöðu og að bæði karlar og konur hætti að líta framhjá því þegar þau verða vitni að kynferðislegri áreitni í sínu umhverfi og átti sig á því hvað er áreitni,“ segir Silja. Það sé auðvitað óþægilegt fyrir alla að þetta geti gerst hvar sem er og í tilfelli hvers sem er. Þar sem karlar séu yfirleitt gerendur, allavega gagnvart konum, sé skiljanlegt að þeim þyki spjótin standa talsvert á sér. „En það er þá líka á þeirra ábyrgð að standa ekki aðgerðalausir hjá og styðja ekki það sem gert er með þögninni.“ Þeir þurfi þá líka að vita hvernig þeir eiga að bregðast við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert