OR vill láta meta þátt 11 fyrirtækja

Höfuðstöðvar Orkuveitunnar.
Höfuðstöðvar Orkuveitunnar. mbl.is/Styrmir Kári

Í dag var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur matsbeiðnamál Orkuveitu Reykjavíkur gegn ellefu fyrirtækjum sem komu að hönnun og byggingu höfuðstöðva Orkuveitunnar að Bæjarhálsi. Vesturbygging Orkuveituhússins er talin ónothæf og heilsuspillandi og er kostnaður við viðgerðir talinn að minnsta kosti nema 1.700 milljónum og hefur jafnvel verið rætt um að rífa húsið.

Er matsmanni ætlað að meta kostnað við úrbætur á göllum hússins og skila af sér rökstuddu áliti. Í tilkynningu frá Orkuveitunni fyrr í haust kom fram að matið kunni í kjölfarið að vera notað í dómsmáli til heimtu bóta úr höndum matsþola vegna tjóns Orkuveitunnar.

Ekki var ákveðinn matsmaður í þinghaldinu í morgun, en Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, sagði við mbl.is í síðasta mánuði að það gæti orðið erfitt og tímafrekt að finna hlutlausan matsmann í litlu landi sem Íslandi, þar sem flestir séu á einhvern hátt tengdir. Kom að hans sögn til greina að leita út fyrir landsteinana og að nokkur ár geti liðið áður en niðurstaða þess manns liggi fyrir.

Í síðasta mánuði keypti Orkuveitan aftur höfuðstöðvarnar fyrir 5,1 milljarð, en fjórum árum áður hafði fyrirtækið selt félaginu Fossi, sem er í eigu lífeyrissjóða, húsið fyrir 5,6 milljarða.

Félögin sem talin eru upp sem matsþolar í þessu máli eru eftirtalin:

  • Byko – Sá um ytri frágang, hönnun og framleiðslu á veggja- og gluggakerfi í vesturhúsi höfuðstöðvanna.
  • Efla hf. – Línuhönnun sá um hönnun burðarþols útveggja, en þegar Efla var stofnuð árið 2008 var Línuhönnun ein af fjórum verkfræðistofum til að sameinast undir nýja nafninu.
  • Hornsteinar arkítektar ehf. – Hönnuðu verkið í samstarfi við Teiknistofu Ingimundar Sveinssonar.
  • Íslenskir aðalverktakar hf. – Innri frágangur framkvæmdanna, þ.m.t. uppsetning rakavarnar í innri uppbyggingu.
  • Lota ehf. – Verkfræðistofa Snorra Ingimarssonar vann brunahönnun fasteignarinnar, en stofan sameinaðist Lotu síðar.
  • Olíuverzlun Íslands hf. – Sáu um frágang þaks og þakkanta.
  • Teiknistofa Ingimundar Sveinssonar ehf. – Hannaði verkið  í samstarfi við Hornsteina arkitekta ehf.
  • Verkfræðiþjónusta Magnúsar Bjarnasonar (SIGMA ehf) – Byggingarstjórn
  • Verkís hf.- Fjölhönnun sá um ráðgjöf vegna byggingar höfuðstöðvanna. Félagið varð síðar hluti af Verkís.
  • VSÓ ráðgjöf ehf. – Verkefnastjórnun vð byggingu höfuðstöðvanna.
  • ÞG verktakar ehf. – Uppsetning utanhússklæðningar, gluggakerfis og hurða.

Lesa má matsbeiðnina í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert