Fjarstæðukenndir framburðir í farsamáli

Aðalmeðferð í málinu lauk í dag.
Aðalmeðferð í málinu lauk í dag. mbl.is/Ófeigur

Ákæruvaldið fer fram á 12 til 18 mánaða fangelsisvist í máli fjögurra einstaklinga sem ákærðir eru fyrir peningaþvætti, en aðalmeðferð í málinu lauk í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Um er að ræða þrjá karlmenn og eina konu, en krafist vægari refsingar yfir konunni, þrátt fyrir að hennar þáttur sé talinn mikill. Þess er krafist að konan sæti fangelsi að lágmarki í 12 til 18 mánuði á meðan krafist er 18 mánaða fangelsisvistar að lágmarki yfir karlmönnunum. 

Benti ákæruvaldið á að alþjóðleg barátta gegn peningaþvætti hefði farið vaxandi á síðustu árum og að lögð væri áhersla á að þyngja refsingar í slíkum málum. Sagði ákæruvaldið ásetning sterkan í þessu máli og þess vegna væru þungar refsingar nauðsynlegar. Hámarksrefsing fyrir peningaþvætti hér á landi er 6 ár.

Er um að ræða um­fangs­mikið mál sem teyg­ir anga sína meðal ann­ars til Suður-Kór­eu, Hong Kong og Ítal­íu. Þrír sak­born­ing­anna eru Íslend­ing­ar en sá fjórði er níg­er­ísk­ur. Heild­ar­upp­hæðin sem til rann­sókn­ar var í mál­inu nam rúm­um fimm­tíu millj­ón­um króna sem send­ar voru hingað til lands í tveim­ur milli­færsl­um, sú fyrri upp á rúm­ar 30 millj­ón­ir og síðari upp rúm­ar 20 millj­ón­ir. Voru fjár­mun­irn­ir lagðir inn á reikn­ing fyr­ir­tæk­is í eigu eins ákærða í mál­inu, Gunn­ars Rún­ars Gunn­ars­son­ar, en hann er sá eini með saka­fer­il á bak­inu.

Um var að ræða illa fengið fé sem rakið er til fjár­svika sem áttu sér stað í lok árs 2015. Hluti pen­ing­anna var svo flutt­ur úr landi meðal ann­ars með mill­færsl­um inn á banka­reikn­ing í Hong Kong.

Framburður Gunnars Rúnars talinn trúverðugastur

Ákæruvaldið rakti stuttlega hvernig fjármunirnir enduðu inni á reikningi fyrirtækis Gunnars Rúnars. Svo virðist sem óþekktir aðilar hafi komst inn í tölvupóst félagsins Daesung Food One Co Ltd í Suður Kór­eu, sem átti í viðskiptum við íslenska fyrirtækið Nesfiskur hf. Náðu þessir óþekktu aðilar að beina tölvupóstsamskiptum félaganna tveggja yfir á óþekkt netfang og gátu hagað því þannig að greiðslur fóru inn á reikning fyrirtækis Gunnars Rúnar í stað Nesfisks. Var frumbrotið ekki útlistað frekar, en ákærðuvaldið ítrekaði að fjársvikin lægu fyrir.

Vitn­is­b­urðir sak­born­inga í mál­inu stang­ast að miklu leyti á, benda þau hvert á annað og ekk­ert þeirra kann­ast við að hafa skipu­lagt málið. Öll vísa þau þó á mann að nafni Sly sem sagður er bú­sett­ur á Ítal­íu og virðist vera einhvers konar höfuðpaur í málinu. Í ákæru er Níg­er­íu­mann­in­um engu að síður gefið að sök að hafa skipu­lagt og gefið meðákærðu fyr­ir­mæli um pen­ingaþvætti eft­ir að hann kom til lands­ins þann 2. fe­brú­ar 2016. Þar seg­ir að brot­in hafi veri fram­in að hans und­ir­lagi. „Kom hann til lands­ins gagn­gert til að sjá til þess að um­rædd­ir fjár­mun­ir yrðu send­ir til­tekn­um er­lend­um aðilum,“ seg­ir í ákær­unni.

Að mati ákæruvaldsins er framburður Gunnars Rúnars talinn langtrúverðugastur, en fram kom að framburðir sakborninga hefðu verið „út og suður“. Atburðarásin í málinu lægi þó fyrir, ekki síst vegna þess hve framburður Gunnars Rúnar hefði verið skýr.

Sagði hann fyrir dómi að hann hefði allan tímann verið meðvitaður um að enginn viðskipti væru að baki þessara millifærslna sem áttu sér stað. Hann sagði sinn hlut þó eingöngu hafa falist í því að lána bankareikning sinn en fyrir það átti að hann fá greidda þóknun. Var það konan í málinu sem  bað hann um það. Gunnar Rúnar sagðist þó ekki hafa vitað að peningarnir hefðu verið illa fengnir.

Fyrir liggur, samkvæmt mati sálfræðings, að Gunnar Rúnar er greindarskertur, en ákæruvaldið benti á að hann hefði engu að síður áttað sig á því að á síðari stigum máls að um ólöglegt athæfi var að ræða. Játning hans liggur fyrir í  öllum þáttum málsins og metur ákæruvaldið það til refsilækkunar hve greinargóður framburður hans var.

Brot konunnar talin að fullu sönnuð 

Í máli ákæruvaldsins kom fram að framburður konunnar væri talinn einna ótrúverðugastur. Óhætt væri að segja að ekki væri heil brú í honum. Framburðurinn hafi verið „skrautlegur, afar fjarstæðukenndur og óstöðugur“ og svör hennar við spurningum hafi verið óskýr. Brot hennar í málinu væru þó að fullu sönnuð.

Ákæruvaldið sagði að hugmyndin um að leggja peningana inn reikning fyrirtækis Gunnars Rúnars virtist hafa vaknað í samtölum á milli konunnar og áðurnefnds Sly, sem hún sagði vin fyrrverandi tengdasonar síns, en aðrir sakborningar sögðu hana hafa sagt hann fyrrverandi kærasta sinn.

Sjálf sagði hún fyrir dómi að hún hefði aðeins ætlað sér að tengja saman Sly og Gunnar Rúnar, þar sem þann fyrrnefnda vantaði aðstoð við fjárfestingar hér á landi. Hann væri að leita leiða fyrir auðjöfur til að koma á fót útflutningsfyrirtæki hér á landi sem myndi sérhæfa sig í útflutningi þorskhausa. Ákæruvaldið benti á að konan hefði ekki getað gefið skýringar á því af hverju hún taldi Gunnar Rúnar vera rétta manninn til að koma að þessum alþjóðlegu viðskiptum, en fyrir hefði legið að hann væri greindarskertur og ætti sér sakaferil.

Ákæruvaldið telur ljóst að konan hafi átt mikla aðkomu að brotinu. Hún hafi í raun verið sú sem dreif hina áfram frá upphafi til enda. Þá hafi hún tekið beinan þátt í að koma fjármunum úr landi sem henni gat ekki dulist að væru illa fengnir.

Í „góðu öðru sæti“ hvað varðar ótrúverðugleika

Að mati ákæruvaldsins er framburður hins íslenska karlmannsins í „góðu öðru sæti“ hvað varðar ótrúverðugleika. Hann er talinn hafa verið mjög virkur í málinu og haft sterkan ásetning. En hann var fenginn til aðstoðar þegar Gunnari Rúnari og konunni tókst ekki að millifæra peningana úr landi. Fyrir dómi sagði hann að honum hefði verið tjáð að peningarnir hefðu komið til vegna viðskipta ávaxtafyrirtækis í Suður-Kóreu.

Maðurinn er æskuvinur Gunnars Rúnar og kvaðst hann fyrir dómi þekkja sakaferil hans. Hann færi hins vegar ekki í manngreiningarálit og hefði tekið hann undir sinn verndarvæng. Hann hafi áttað sig á því að Gunnar Rúnar væri kominn í vandræði sem hann gat ekki komið sér út úr og ákvað því að hjálpa honum við að millifæra peningana. Ráðfærði hann sig við lögmann áður en hann lét millifæra peningana inn á sinn reikning þaðan sem þeir voru áframsendir til Hong Kong.

Telur ákæruvaldið manninn hafa gert sér fulla grein fyrir því að um illa fengið fé hafi verið að ræða. Benti ákæruvaldið á að Pálmi hefði notast við sérstakan síma til að eiga í samskiptum við aðila máls, en það væri þekkt í brotastarfsemi að keyptir væru sérstakir símar til að erfiðara væri að tengja fólk sama.

Sendur til að hafa áhrif á atburðarásina

Ákæruvaldið telur Nígeríumanninn hafa verið útsendara Sly hér á landi. Hann hafi átt að fylgjast með því að peningarnir yrðu millifærðir inn á reikning í Hong Kong og í raun sendur hingað til lands til að þrýsta á Íslendingana að þau gera eins og þau hefðu fengið fyrirmæli um. „Hann er sendur hingað til að hafa áhrif á atburðarásina,“ sagði ákæruvaldið.

Að mati ákæruvaldsins er framburður Nígeríumannsins einnig fjarstæðukenndur. Bar hann fyrir dómi að hann hefði komið hingað til lands að beiðni vinar síns Sly til að taka myndir af kvittunum fyrir millifærslu peningana. Sagði hann Sly hafa ætlað að eiga viðskipti á Íslandi en hefði skipt um skoðun og frekar viljað að peningarnir færu til Hong Kong. Konan sem hann hefði verið í samskiptum við á Íslandi svaraði honum hins vegar ekki alltaf. Átti hann þar við konuna sem ákærð er í málinu. Sagði hann það ekki hafa hvarflað að sér að hann væri að taka þátt í ólöglegu athæfi.

Ákæruvaldið sagði að þrátt fyrir að hann hefði reynt að leika sakleysingja í málinu þá væri það augljóst að hann hefði verið sendur hingað til lands til að sjá til þess að peningarnir yrðu sendir úr landi. Þá væri augljóst að nærvera hans setti pressu á aðra sakborninga.

Í ljósi alvarleika brotanna telur ákæruvaldið ekki koma til greina að skilorðsbinda dómana.

„Saklaus milliliður“ 

Lögmaður konunnar gerir þær kröfur að hún verði sýknuð, en verði hún sakfelld þá verði henni ekki gerð refsing, að minnsta kosti vægasta mögulega refsing.

Lögmaðurinn sagði lýsingu ákæruvaldsins atburðum í raun ekki andmælt. Það lægi fyrir að um 50 milljónir króna hefðu verið millifærðar frá suður-kóresku fyrirtæki inn á reikning fyrirtækis í eigu Gunnars Rúnars. Þá hefðu peningarnir verið teknir út af reikningnum og stærstur hluti þeirra fluttur úr landi.

50 milljónir króna voru til rannsóknar vegna málsins.
50 milljónir króna voru til rannsóknar vegna málsins. mbl.is/Árni Sæberg

Lögmaðurinn andmælti því hins vegar að konan hefði haft nokkra vitneskju um uppruna þess fjár sem millifært var og að henni hefði ekki verið kunnugt um að féð var illa fengið. Benti lögmaðurinn á að konan hefði gengist við hluta ákærunnar, eða að hafa aðstoðað við að millifæra peninga úr landi. Því væri hins vegar andmælt að sú aðkoma hennar að málinu gæti talist þáttur í peningaþvætti.

Lögmaðurinn sagði það liggja fyrir að konan hefði ekki verið virkur þátttakandi í málinu. Frekar mætti orða það þannig að hún „hafi verið saklaus milliliður, líkt og hún hefur sjálf lýst með trúverðugum hætti að mati lögmanns. Hún stóð á þessum tíma í þeirri trú að uppruna fjárins mætti rekja til lögmætra viðskipta. Þannig var henni kynnt málið í upphafi. Lögmaðurinn benti á að konan hefði ekki fengið fjárhagslega umbun fyrir aðstoð sína, fyrir utan 440 þúsund króna greiðslu sem hún sagði hafa verið uppgjör gamallar skuldar Sly við hana. Fyrir liggur hins vegar í málinu að Gunnar Rúnar tók út rúmar sex milljónir króna af reikningi sínum og samkvæmt framburði hans afhenti hann konunni helming þeirrar upphæðar.

Fékk snert af taugaáfalli

Lögmaðurinn benti á að konan hefði ekki haft aðgang að þeim íslensku bankareikningum þar sem féð lá inni. Það hafi því verið útilokað fyrir hana að aðhafast með einhverjum hætti. Lögmaðurinn segir því útlokkað að hún geti talist aðalamaður í málinu.

Lögmaðurinn sagði konuna hafa brotnað saman þegar hún var hneppt í gæsluvarðhald og fengið snert af taugaáfalli. Hún iðrist mjög vegna þátttöku sinnar í hinni meintu brotatstarfsemi þrátt fyrir að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því á sínum tíma að um lögbrot hafi verið að ræða.

Lögmaðurinn benti að konan væri móðir fjögurra barna, þar af 19 ára einhverfrar stúlku sem kæmi til með að búa hjá henni um ófyrirséða framtíð, enda gæti hún ekki séð um sig sjálf. Þá sagði hann konuna hafa verið mjög öfluga í ýmis konar hjálparstarfi og meðal annar starfað sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og í Konukoti.

Varð var við verulega fjármuni á reikningnum 

Lögmaður Gunnars Rúnars gerir í fyrsta lagi kröfu um að málinu verði vísað frá, þá að hann verði sýknaður eða að minnsta kosti gerð lægsta mögulega refsing verði hann fundinn sekur. Þá verði fangelsisrefsing skilorðsbundin að öllu leyti. Lögmaðurinn benti á að skjólstæðingur sinn væri sá eini sem gengist hefði verið sínum hlut að öllu leyti.

Sagði lögmaðurinn það skrýtið að krafist væri vægari refsingar yfir konunni og fannst honum að einnig ætti að horfa til vægari refsingar hjá öðrum sakborningum. Þá sagði hann að það virtist tilviljunum háð hverjir hefðu verið ákærðir í málinu.

Í máli lögmannsins kom fram að konan hefði haft samband við Gunnar Rúnar í lok nóvember 2015 og beðið hann um að útvega bankareikning. Varð hann við því. Virðist þetta hafa gerst á svipuðum tíma og fjársvikin áttu sér stað.

Tveimur mánuðum síðar varð Gunnar Rúnar var við það, þegar hann tók pening út úr hraðbanka, að verulegar upphæðir voru inni á reikningi hans. Lögmaðurinn sagði viðbrögð hans við því hugsanlega ekki hafa verið rétt, enda hefði hann ekki haft samband við lögreglu. Fljótlega hafði konan hins vegar samband við hann og upphófst sú atburðarás sem greint hefur verið frá.

Greindarskertari en 99 prósent Íslendinga

Lögmaðurinn sagði Gunnar Rúnar ekki hafa vitsmunalega burði til að standa í slíkum gjörningi og honum væri gefið að sök að hafa tekið þátt í. Lagði hann greindarpróf fyrir dóminn máli sínu til stuðnings. Prófið sýndi fram á að Gunnar Rúnar væri með verulega skerta greind. 99 prósent Íslendinga skoruðu hærra en hann.

Sagðist lögmaðurinn ætla að það væri ástæða þess að konan leitaði til hans. Tilgangurinn hefði verið að nýta sér verulega skerta greind hans. Benti hann að um leið og kom að þætti Gunnars Rúnar við að millifæra peningana þá hefði málið strandað. Þá hefði hann í einfeldni sinni ekki gert neina tilraun til að fela slóð sína.

Lögmaðurinn sagði Gunnar Rúnar ekki hafa mátt vita að um illa fengið fé var að ræða, þrátt fyrir að á síðari stigum máls hefðu farið að renna á hann tvær grímur. Benti lögmaðurinn á að ekkert við konuna hefði bent til þess að hún væri tengd glæpastarfsemi, enda væri hún fjölskyldukona með hreint sakavottorð.

Lögmaðurinn ítrekaði að það eina sem Gunnar Rúnar hefði gert hefði verið að lána bankareikning sinn og að hann hefði verið notaður.

Með 25 milljóna flugmannspróf í vasanum

Lögmaður hins íslenska karlmannsins krafðist einnig sýknu yfir skjólstæðingi sínum, en til vara að honum yrði gerð lægsta mögulega refsing. Sagðist lögmaðurinn varla hafa lengur vitað hvað hann hét eftir að hafa lesið yfir gögn málsins, enda væru þau yfir 3.000 blaðsíður. Þessi orð lögmannsins voru í takt við það hvernig aðrir lýstu upplifun sinni af málinu.

Skjólstæðingur hans er æskuvinur Gunnars Rúnars og kom að málinu þegar ekki tókst að millifæra peningana til Hong Kong, eins og til stóð. Varð það úr að peningarnir voru fluttir inn á hans reikning áður en þeir voru að lokum millifærðir til Hong Kong.

Lögmaðurinn sagði skjólstæðing sinn ekkert hafa verið inni í atburðarrásinni fram að því. Honum hafi verið sagt að peningarnir kæmu frá ávaxtafyrirtæki í Suður-Kóreu og taldi hann að þeir væru í eigu áðurnefnds Sly. Hann gerði sér ekki grein fyrir því að féð væri illa fengið. Taldi maðurinn sig því aðeins vera að aðstoða gamlan vin vegna skertrar getu hans.

Lögmaðurinn benti á að maðurinn hefði ekki gert neina tilraun til að fela slóð sína. Hann hefði notað sinn persónulega bankareikning og hringt sjálfur í bankann og beðið um staðfestingu á millifærslunum. „Ef ákærði taldi sig vera að taka þátt í peningaþvætti þá var þetta væntanlega með heimskulegri leiðum.“

Peningarnir voru millifærðir inn á reikning fyrirtækis Gunnars Rúnars.
Peningarnir voru millifærðir inn á reikning fyrirtækis Gunnars Rúnars. AFP

Benti hann á skjólstæðingur sinn væri með atvinnuflugmannspróf sem kostaði hann 25 milljónir króna. Ekki mætti hins vegar fljúga ef maður væri með mál til rannsóknar hjá lögreglu og það hefði því aldrei borgað sig fyrir skjólstæðinginn að taka áhættu með því að taka þátt í ólögmætu athæfi. Honum hefði verið lofað 5.000 dollurum fyrir sinn hlut en þegar upp var staðið fékk hann aðeins 56 þúsund krónur.

Lögmaðurinn hafnaði því að framburður mannsins hefði tekið breytingum, líkt og ákæruvaldið hefði haldið fram. Hann hefði skýrt skilmerkilega frá sínum þætti. Þá benti lögmaðurinn á að maðurinn hefði viljað hjálpa lögreglu að svæla höfuðpaurana út. Hann hefði reynt að plata þá til landsins eftir að hann losnaði úr gæsluvarðhaldi með því að þykjast enn vera með fjármunina sem ekki hafði tekist að millifæra.

Átti að fá andvirði mánaðar húsaleigu

Lögmaður Nígeríumannsins krafðist einnig sýknu eða lægstu mögulegu refsingar. Hann gagnrýndi málsmeðferð ákæruvaldsins sem tekið hefði mjög langan tíma og skjólstæðingur hans hefði þurft að sitja í gæsluvarðhaldi í tíu mánuði vegna þess. Lögmaðurinn benti að málið væri yfirgripsmikið, flókið og margslungið og erfitt væri að greina á milli þess sem væri rétt og rangt. Hann sagði framburð skjólstæðings síns ekki ótrúverðugan og sagði hann hafa verið samstarfsfúsan allan tímann.

Hann sagði Sly, vin Nígeríumannsins, hafa beðið hann að fara til Íslands og sjá til þess að peningarnir væru fluttir til Hong Kong. Sagði Sly Íslendingana draga lappirnar í málinu og svo virtist sem þeir væru að ræna hann.

Lögmaðurinn sagði engar upplýsingar liggja fyrir um að skjólstæðingur hans hefði haft vitneskju um hvaðan fjármunirnir komu. Þá hefði hann ekki átt að fá hluta þeirra. Hann hefði hins vegar ekki átt að bera kostnað af Íslandsförinni og átti að fá 500 evrur fyrir viðvikið, sem hefði dekkað mánuð af húsaleigu hans á Ítalíu.

Benti lögmaðurinn á að ákvörðun um peningaþvættið hefði legið fyrir þegar skjólstæðingur hans kom til Íslands og sagði engin gögn benda til þess að hann væri útsendari þeirra sem áttu fjármunina. Þá væri ekkert í gögnum sem benti til þess að hann hefði fyrirskipað peningaþvættið. Sagði hann framburð konunnar það eina sem benti til þess að maðurinn hefði tekið þátt í peningaþvætti.

Lögmaðurinn sagði manninn ekki hafa haft neinar upplýsingar um það hvar peningarnir voru eða hvert þeir áttu að fara. Hann hafi eingöngu vitað að þeir áttu að fara til Hong Kong.

mbl.is