Kertasníkir vinsælasti jólasveinninn

Jólasveinar taka sjálfsmynd.
Jólasveinar taka sjálfsmynd. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Kertasníkir er vinsælasti jólasveinninn þriðja árið í röð en þetta kemur fram í könnun MMR um vinsældir íslensku jólasveinanna. Stúfur og Hurðaskellir koma næstir á eftir Kertasníki.

Kertasníkir reyndist hlutskarpastur þriðja árið í röð og heldur titlinum „Uppáhalds jólasveinn Íslendinga“ með 30% tilnefninga. Könnunin var framkvæmd dagana 12. til 15. desember 2017 og var heildarfjöldi svarenda 923 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Sú breyting hefur aftur orðið frá fyrra ári að aðdáendum Stúfs hefur fjölgað nokkuð, úr 24% í 29% og munar því ekki nema einu prósentustigi á vinsældum bræðranna tveggja. Hurðaskellir var líkt og fyrri ár í þriðja sæti með 13% tilnefninga.

Þó nokkur munur reyndist á vinsældum jólasveinanna eftir kyni svarenda. Kertasníkir er greinilega mikið kvennagull en heil 40% kvenna nefndu hann sem sinn uppáhalds jólasvein samanborið við 19% karla. Stúfur fylgdi fast á eftir Kertasníki í vinsældum meðal kvenna en 32% þeirra sögðu hann uppáhalds jólasveininn sinn.

Til samanburðar völdu 27% karla Stúf sem uppáhalds sveininn sinn. Kertasníkir er því uppáhalds jólasveinn íslenskra kvenna 2017 en Stúfur uppáhalds jólasveinn íslenskra karla 2017. Landsmenn kunna greinilega vel að meta lætin og gauraganginn í Hurðaskelli og sögðust 14% karla og 11% kvenna halda mest upp á hann. Mikill munur var hins vegar á vinsældum Ketkróks eftir kynjunum og sögðu heil 11% karla hann vera uppáhalds jólasvein sinni, en einungis 2% kvenna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert