„Ég bara læri“

Freydís María Friðriksdóttir dúxaði á haustönn úr FG.
Freydís María Friðriksdóttir dúxaði á haustönn úr FG. Ljósmynd/Gunnar Hólmsteinn Ársælsson

„Ég bara læri,“ segir Freydís María Friðriksdóttir, sem dúxaði með 9,37 í meðaleinkunn á haustönn úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ, spurð hvernig hún færi að því að ná þessum námsárangri. Hún var með 9,37 í meðaleinkunn af tæknisviði á náttúrufræðabraut en á því sviði er lögð meiri áhersla á tölvufræði og eðlisfræði í stað líffræði og efnafræði.

Freydís lauk námi á þremur og hálfu ári í stað fjögurra en hún er í síðasta árganginum sem á að ljúka námi á fjórum árum. „Mér gekk alltaf vel í eðlisfræði en ég skil ekkert í henni. Mér gekk líka vel í stærðfræði og tölvufræði og líka ensku,“ segir Freydís spurð hvort einhver fög hafi verið í uppáhaldi hjá henni. 

„Ég ætla að vinna og fara í einkaflugmanninn í september,“ segir Freydís um næstu skref eftir útskrift. „Ef flugið virkar ekki þá fer ég líklega í tölvunarfræði. Ég nenni samt ekki alveg strax í háskóla,“ segir hún um framtíðaráformin. Fyrst ætlar hún að huga að jólunum og skreyta áður en hún fer á fullt að finna sér vinnu fyrir næsta árið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert