Skoða bætur í hverju tilfelli fyrir sig

Flugvélar Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Flugvélar Icelandair á Keflavíkurflugvelli.

Fólk er enn að hafa samband við Samgöngustofu vegna verkfalls flugvirkja dagana 17. og 18. desember. Töluvert var haft samband við stofnunina á meðan á verkfallinu stóð og svo er enn, að sögn Þórhildar Elínar Elínardóttur, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu.

„Það er fjöldi manns sem hefur áhuga á að kanna réttindi sín,“ segir Þórhildur. „ Á meðan á verkfallinu stóð þá snérist þetta að töluverðu leyti um þá þjónustu sem fólk ætti rétt á, til að mynda hjá þeim sem voru kannski strandaglópar einhvers staðar. Í þeim tilfellum vildi fólk t.d. kanna hvort að flugmiðinn væri ónýtur.“

Þjónustan, sem allir farþegar sem verða fyrir röskun eiga rétt á, er ein hliðin á peningnum og hin hliðin er mögulegar bætur og þær þarf að skoða í hverju tilfelli fyrir sig að sögn Þórhildar.

Ekki sama viðráðanlegar eða óviðráðanlegar aðstæður

Hún segir réttustu leiðina fyrir fólk að hafa samband við flugrekandann, í þessu tilfelli Icelandair, og grennslast fyrir um sjónarmið hans og kanna hvort að sitt tilfelli falli undir reglurnar. „Sé túlkun flugrekandans ekki í samræmi við væntingar farþegans og samkomulag næst ekki, þá getur farþeginn skotið erindi til Samgöngustofu. Við skoðum þá málið og tökum ákvörðun,“ segir Þórhildur.

Röskun á flugi valdi alltaf bæði farþegum og flugrekanda tjóni, en teljist aðstæðurnar óviðráðanlegar þá getur farþegi ekki gert kröfur um sérstakar bætur. Óháð þessu á hann þó alltaf rétt á þjónustu. „Bæturnar eru eins og óþægindabætur og koma til viðbótar þjónustunni,“ útskýrir Þórhildur og nefnir að eldgos, hryðjuverk eða miklar veðursviptingar flokkist undir óviðráðanlegar aðstæður og það geri raunar líka verkfall hjá þriðja aðila.

„Ef aðstæður eru metnar þannig að um viðráðanlegar aðstæður sé að ræða og að flugrekandi geti haft einhverja stjórn á aðstæðum, þá geta farþegar hins vegar átt rétt á bótum,“ segir hún.

Verkfall hjá starfsmönnum  fyrirtækisins sjálfs sem boðað er með viku fyrirvara, líkt og í tilfelli Icelandair, segir Þórhildur Samgöngustofu almennt túlka að falli ekki undir skilgreininguna óviðráðanlegar aðstæður. „Það er hin almenna túlkun Samgöngustofu en á hinn bóginn er ekki hægt að gefa út á línuna að allir farþegar eigi sjálfkrafa rétt á bótum vegna þess að hvert tilfelli getur verið ólíkt því næsta,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert