Háskólamenn líta til úrskurðar kjararáðs

„Kjaraviðræðurnar fóru í hægagang þegar engin ríkisstjórn var í haust,“ …
„Kjaraviðræðurnar fóru í hægagang þegar engin ríkisstjórn var í haust,“ segir varaformaður BHM. mbl.is/Hari

„Ég tel það nokkuð öruggt að aðildarfélög bandalagsins [BHM] horfa meðal annars til hækkana kjararáðs, sem þau úrskurða um, í sínum kröfugerðum,“ segir Gyða Hrönn Einarsdóttir, varaformaður Bandalags háskólamanna, spurð hvort háskólamenn eigi eftir að líta til úrskurðar kjararáðs í kröfu sinni í kjaraviðræðum líkt og Gylfi Arnbjörnsson, for­seti ASÍ, hefur bent á.

Hátt í annan tug aðildarfélaga Bandalags háskólamanna eru í kjaraviðræðum. Þær viðræður eru ekki á forræði bandalagsins sem slíks. Þeir samningar hafa verið lausir frá 1. september. „Kjaraviðræðurnar fóru í hægagang þegar engin ríkisstjórn var í haust,“ segir Gyða Hrönn.

Á síðasta fundi BHM með aðildarfélagunum sáu þau engar lausnir í sjónmáli, að sögn Gyðu Hrannar. Sá fundur sem hún vísar til átti sér stað fyrir síðasta úrskurð kjararáðs þar sem laun prestastéttarinnar voru hækkuð. Fyrir það litu aðildarfélögin meðal annars til úrskurðar kjararáðs um laun þingmanna.   

Mikill munur er á launasetningu hjá ríkinu og innan stofnana þess. „Ég veit að aðildarfélögin hafa viljað ræða og skoða þennan mun, sérstaklega hjá þeim stofnunum þar sem launasetningin er lægst,“ segir hún.

Gyða Hrönn Einarsdóttir, varaformaður Bandalags háskólamanna (BHM).
Gyða Hrönn Einarsdóttir, varaformaður Bandalags háskólamanna (BHM). ljósmynd/BHM
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert