Fjölgunin fylgi fjölgun umsókna

Páll Magnússon er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Páll Magnússon er formaður allsherjar- og menntamálanefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, segir enga sérstaka ástæðu fyrir fjölgun þeirra einstaklinga sem nefndin lagði til að fengju íslenskan ríkisborgararétt. Í dag lagði nefndi til að 76 einstaklingum yrði veittur íslenskur ríkisborgararéttur, en umsóknirnar voru alls 125. Í desember í fyrra voru umsóknir 70 og fengu 31 einstaklingur ríkisborgararétt.

„Augljósasta skýringin er náttúrulega bara sú að umsækjendum hefur fjölgað,“ segir Páll. Segir hann Útlendingastofnun hafa mjög þröngan ramma til þess að veita íslenskan ríkisborgararétt, en fólk þurfi að uppfylla ýmis skilyrði, svo sem um dvalartíma og íslenskukunnáttu.

Alþingi taki svo við þeim málum sem af einhverjum ástæðum falla ekki inn í rammann hjá Útlendingastofnun en mönnum þyki ástæða til að skoða betur, svo sem af mannúðarástæðum.

„Það getur vel verið að þessi ventill ætti að vera einvers staðar annars staðar en á Alþingi en menn hafa komist að þessari niðurstöðu,“ segir Páll. Þá segir hann að margt af þessu fólki myndi alla jafna fá íslenskan ríkisborgararétt innan 18 mánaða eða tveggja ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert