Takmarkað skyggni vegna flugeldareyks

Svifryksmengunin liggur enn yfir höfuðborgarsvæðinu.
Svifryksmengunin liggur enn yfir höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skyggni á höfuðborgarsvæðinu var takmarkað frá því miðnætti og þar til klukkan fór að ganga tvö í nótt. Mældist skyggnið ekki nema um 700 metrar, en skyggni er mælt við höfuðstöðvar Veðurstofu Íslands við Bústaðaveg.

Svifryksmengun vegna flugeldareyks var einnig mjög mikil, enda hreyfði varla vind. Heilsuverndarmörk fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra en í gærkvöldi fóru gildin upp í allt að 4.500 míkrógrömm á rúmmetra, við Dalsmára í Kópavogi.

„Þetta er náttúrlega árvisst um þetta leyti um áramótin, að það komi há gildi, sérstaklega eins og aðstæður eru eins og í gær, það hreyfði varla vind í gærkvöldi og í nótt svo að reykurinn komst eiginlega ekki neitt,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

Hann segir skyggnið eftir miðnætti hafi verið líkt og í venjulegu þokuveðri. „Nema þetta var reykur náttúrlega.“

Hægur vindur og fallegt veður verður á suðvesturhorni landsins í dag að sögn Haralds og búast má við því að loftgæði í höfuðborginni batni smám saman.

Loftgæði í höfuðborginni eru smám saman að batna eftir mikla …
Loftgæði í höfuðborginni eru smám saman að batna eftir mikla svifryksmengun í nótt. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert