Snjóþekja á höfuðborgarsvæðinu

Úrkomuspá klukkan 8 í dag, 7. janúar.
Úrkomuspá klukkan 8 í dag, 7. janúar. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Þétt snjókoma var snemma í morgun á höfuðborgarsvæðinu, aðallega í efri byggðum, sem og víðar á sunnan- og vestanverðu landinu. Snjóþekja er á götum borgarinnar. Mokstur er hafinn á einhverjum leiðum. 

Hér getur þú skoðað færðina á vefmyndavélum.

Vegagerðin varaði við hríðarveðri og 12-15 m/s á Hellisheiði og Mosfellsheiði frá því í nótt og fram undir kl. 11 í dag.

Veðurvefur mbl.is.

Hér að neðan má sjá kort sem sýnir lægðirnar umhverfis landið. Greinin heldur áfram neðan þess.

Veðurstofa Íslands varar við suðaustan hvassviðri eða stormi á landinu í dag með hlýnandi veðri. Talsverð rigning verður sunnantil, en sums staðar mikil rigning á Suðausturlandi annað kvöld. Snjókoma og síðar slydda og rigning í öðrum landshlutum, en úrkomulítið norðaustanlands. Bætir einnig í vind norðan- og austanlands seint í kvöld, einkum á fjallvegum, og hlýnar yfir frostmark. Því geta verið erfið akstursskilyrði sökum vinds og hálku.

Samkvæmt upplýsingum veðurfræðings Veðurstofunnar heldur nokkuð djúp lægð sig nálægt Hvarfi, syðsta höfða Grænlands, og tvenn úrkomuskil frá þeirri lægð ganga yfir Ísland. Fyrri skilin eru nú þegar komin upp að landinu með hvassviðri eða stormi og snjókomu, en í kjölfar þeirra hlýnar og fer að rigna á sunnanverðu landinu. Áfram verður snjókoma norðantil.

Töluvert snjóaði í borginni í nótt og í morgun og …
Töluvert snjóaði í borginni í nótt og í morgun og var nokkuð slæmt skyggni í efri byggðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikil rigning í kvöld

Í kvöld koma svo önnur skil og má búast við talsverðri rigningu sunnanlands og mikilli rigningu á köflum suðaustantil. Það dregur svo úr úrkomu fyrir norðan og rofar þar til seint í kvöld eða nótt.

Það verður byljóttur vindur, einkum til fjalla, á norðan- og austanverðu landinu í kvöld og hlýnar einnig víða yfir frostmark. Ferðalöngum er því bent á að fylgjast grannt með færð á vegum. Það má gera hér, á færðarkorti Vegagerðarinnar.

Mun hægari vindur og úrkomuminna á morgun en aðfaranótt þriðjudags hvessir aftur úr suðri með rigningu víða um land.

Varað er við hvassviðri eða stormi á norðanverðu landinu, frá …
Varað er við hvassviðri eða stormi á norðanverðu landinu, frá Breiðafirði og til Austfjarða. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Svona var svo færðin á vegum landsins klukkan átta í morgun, sunnudag:

Suðvesturland: Krapasnjór eða snjóþekja er víða á Reykjanesi. Snjóþekja eða hálkublettir eru á höfuðborgarsvæðinu.  

Suðurland: Hálka eða snjóþekja. Snjókoma eða éljagangur allvíða. Þæfingur og skafrenningur er á Sandskeiði og Hellisheiði.

Vesturland: Hálka, snjóþekja og þæfingur. Hálka og snjókoma er á Holtavörðuheiði. Stórhríð er á Útnesvegi.

Vestfirðir: Ófært eða þungfært er á flestöllum leiðum, mokstur verður skoðaður um klukkan 12. Lokað er um Súðavíkurhlíð. Þæfingur og hálka er á Innstrandavegi. 

Norðurland: Hálka eða snjóþekja og skafrenningur á flestum leiðum. Þæfingur og éljagangur á Hólasandi.

Austurland: Hálka eða snjóþekja er á flestöllum leiðum, skafrenningur og éljagangur á fjallvegum.

Suðausturland: Hálka og snjóþekja. Þæfingur og stórhríð er í Eldhrauni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert