Jón Karl fer ekki í framboð

Jón Karl Ólafsson.
Jón Karl Ólafsson. Ljósmynd/Isavia

Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri flugvallarsviðs Isavia, ætlar ekki að taka þátt í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna sveitarstjórnarkosninganna í vor.

„Ég ætla mér ekki að fara í pólitík í bili,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Aðspurður segir hann ákvörðunina hafa verið erfiða. „Það kom mér á óvart hvað margir töldu þetta góða hugmynd. Ég ákvað að taka helgina í þetta til að ákveða mig endanlega.“

Jón Karl starfaði áður sem forstjóri Icelandair.

Fleiri hafa verið nefndir í tengslum við leiðtogakjörið, þar á meðal Eyþór Arnalds, framkvæmdastjóri og fyrrverandi oddviti sjálfstæðismanna í Árborg, Borgar Þór Einarsson, hæstaréttarlögmaður og aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, og Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Þau tvö síðarnefndu hafa bæði ákveðið að gefa ekki kost á sér.

Tvö hafa lýst yfir fram­boði í leiðtoga­kjör­inu. Borg­ar­full­trú­arn­ir Áslaug Friðriks­dótt­ir og Kjart­an Magnús­son.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert