Skarst þegar trampólín fauk á rúðu

Björgunarsveitarmenn huga að trampólíni. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Björgunarsveitarmenn huga að trampólíni. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Ljósmynd/Jónas Guðmundsson

Unglingspiltur skarst og þurfti að láta sauma sig á slysadeild eftir að trampólín fauk á rúðuna í herbergi hans í parhúsi í Lindahverfi í Kópavogi í morgun.

Pilturinn var sofandi undir glugganum og vaknaði við það að glerbrotum rigndi yfir hann. Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar, var pilturinn í sjokki eftir atvikið. Farið var með hann á slysadeild þar sem glerbrot voru hreinsuð úr sárum hans og hann saumaður.

Trampólínið hafði fokið úr garði í nærliggjandi parhúsi. Auk þess að brjóta rúðuna, skemmdi það þakkant á parhúsinu. Einnig olli það skemmdum á nokkrum bílum.

Tilkynning um atvikið barst klukkan 8.20 í morgun.

Húsráðandi var byrjaður að setja plötu fyrir gluggann þegar björgunarsveitarmenn mættu á vettvang.

Að sögn Davíðs Más er þetta eina tilfellið sem tengist trampólínum sem komið hefur upp vegna óveðursins í morgun.

Hann hvetur fólk til að huga að trampólínum sínum áður en óveður ganga yfir. „Við ítrekum að trampólín geta verið stórhættuleg. Þau eiga það til að fjúka ansi langt og jafnvel hátt,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert