Þjálfarinn sagði nauðgunina kannski hafa gert henni gott

462 íþróttakonur undirrituðu yfirlýsingu sem var send út í dag.
462 íþróttakonur undirrituðu yfirlýsingu sem var send út í dag.

„Eftir að mér var nauðgað af þjálfaranum mínum grenntist ég töluvert og átti mjög erfitt með að borða og sofa,“ segir í frá­sögn íþróttakonu sem er ein þeirra sem birta sögu sína nafn­laust und­ir myllu­merk­inu #MeT­oo.

„Ég segi síðan tveimur þjálfurunum í landsliðsteyminu frá því að mér hafi verið nauðgað svo þeir vissu hvað ég væri að ganga í gegnum. Nokkrum dögum seinna kom einn aðstoðarlandsliðsþjálfarinn upp að mér og sagði við mig að ég ætti að líta á björtu hliðarnar; kannski hefði verið gott að mér var nauðgað því nú væri ég svo grönn,“ segir í frásögn sömu íþróttakonu.

462 íþróttakonur und­ir­rituðu yf­ir­lýs­ingu sem send var út í dag þar sem þær krefjast þess að fá að vinna sína vinnu án áreitni, of­beld­is og mis­mun­un­ar. Sam­hliða voru birt­ar 62 reynslu­sög­ur.

Varð gjörsamlega stjörf af hræðslu

„Fyrir tveimur árum lenti ég í því að æfingafélagi minn káfaði á mér niðri í bæ þegar hópurinn fór og fagnaði keppnislokum. Ég æfi glímuíþrótt. Í því er mikil nánd enda liggur maður mestan hlutann af tímanum á gólfinu annaðhvort ofan á hinum aðilanum eða hann ofan á þér,“ segir önnur og bætir við að traust til æfingafélaga sé mikilvægt og algjör grunnur að ánægju í íþróttinni.

„Sjálf varð ég fyrir nauðgun 15 ára og því átti ég alltaf mjög erfitt með að láta snerta mig. Þegar ég byrjaði í íþróttinni 25 ára gömul þá tók það mig marga mánuði að byggja upp þetta traust til æfingafélaga minna,“ segir hún og bætir við að umrætt kvöld hafi reynst sér afar erfitt.

Æfingafélaginn króaði hana af á dansgólfi og káfaði á henni allri. „Ég varð gjörsamlega stjörf af hræðslu og kom ekki upp orði. Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera og reyndi að koma mér undan sem tók þó nokkra stund. Þetta sat svakalega í mér en ég ákvað að segja ekkert, þangað til ég komst að því að sami strákur hafði komið eins fram við aðra vinkonu mína helgina áður en hún var líka að æfa með okkur.“

Stelpan talaði við formann félagsins og orðum hennar og hinnar stelpunnar var trúað en strákurinn neitaði öllu. Strákurinn var beðinn að mæta ekki aftur í glímuíþróttina en mætti mæta í aðrar íþróttir sem félagið byði upp á.

Ég er afskaplega þakklát fyrir viðbrögðin sem ég fékk frá mínu íþróttafélagi og karlmönnunum sem æfðu með mér og studdu ekki svona óviðeigandi hegðun. Ég er ein af þeim heppnu sem fengu þau viðbrögð sem eiga að verða í kjölfar svona hegðunar.“

Hrædd við að rekast á nauðgarann

„Ég er 18 ára og er í handbolta. Í maí 2016 var mér nauðgað af handboltamanni. Þessi einstaklingur er og hefur verið í yngri landsliðum upp sinn feril og núna er hann í afrekshópi A-landsliðsins (sem hann var líka þegar þetta gerðist),“ segir í frásögn handboltakonu sem hefur einnig verið í yngri landsliðum.

„Ég á mjög erfitt með að fara á handboltaleiki vegna hræðslunnar um að rekast á hann, hvað þá á hans heimavelli. Ég fæ kvíðakast vitandi að ég þarf að keppa í húsinu sem hann æfir í og að hann gæti mögulega dæmt 3. flokks leiki hjá mér á móti hans liði. HSÍ hefur verið að byggja upp allt í sambandi við landsliðin, um daginn var haldinn sameiginlegur fyrirlestur fyrir öll landsliðin. Þegar ég labba að stelpunum í mínu landsliði sé ég hann sitja á borðinu við hliðina og hvernig hann horfði á mig. Ég sone-aði út og man lítið sem ekkert eftir þessum fjögurra klst. fyrirlestri sem ég sat.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert