„Algjörlega ólíðandi og óþolandi“

Frásagnir fjölda íþróttakvenna voru birtar í gær.
Frásagnir fjölda íþróttakvenna voru birtar í gær.

„Það er algjörlega ólíðandi og óþolandi að svona komi upp,“ segir Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, um frásagnir íþróttakvenna sem voru birtar í gær þar sem greint var frá kynbundnu ofbeldi í þeirra garð.

Hún segir að fjöldi frásagnanna og innihald margra þeirra hafi komið sér á óvart. Hún hafi heyrt af einhverjum frásögnum áður í formi sögusagna en ekki þeim alvarlegu ásökunum sem komu fram. Hún hafi ekki áður heyrt staðfestar frásagnir frá þolendunum sjálfum. 

Spurð út í viðbrögð ÍSÍ við frásögnunum segir hún að sambandið hafi á undanförnum vikum verið að endurskoða fræðsluefni sitt. „Við erum með mjög mikið af fræðsluefni sem bæði er í bæklingum og inni á heimasíðu okkar varðandi einelti, kynferðislegt áreiti og ofbeldi. Við þurfum bara að sjá með hvaða hætti við getum bætt það og með hvaða hætti við getum komið því enn betur á framfæri,“ segir Líney Rut.

„Þessi #metoo-bylting er að lyfta grettistaki við að hjálpa fólki að stíga fram. Á meðan þú veist ekki af því er voðalega lítið hægt að gera.“

Ekki með höfuðið í sandinum

Hafið þið sofið á verðinum að einhverju leyti?

„Íþróttahreyfingin er búin að vera um langt árabil með fræðsluefni hvað þetta varðar. Við höfum ekki alveg verið með höfuðið í sandinum enda þýðir það ekki því hreyfingin okkar er þverskurður af samfélaginu. Þetta er ekki einkamál íþróttahreyfingarinnar heldur mál okkar allra í samfélaginu að gera bragarbót og breytingar á hvað er líðandi í samskiptum.“

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og ólympíusambands Íslands.
Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og ólympíusambands Íslands.

Að sögn Líneyjar Rutar verður brugðist við frásögnunum í samstarfi við samstarfsaðila, hvort sem það eru héraðs- eða sérsambönd. „Það sem er mikilvægast er að iðkandinn, verði hann fyrir áreiti eða ofbeldi, að hann finni að hann geti stigið fram og látið vita. Líka hvert hann geti leitað.“

Hún nefnir einnig að mál sem tengjast kynbundu ofbeldi eigi að vera í höndum fagaðila, hvort sem það eru lögregla, sálfræðingar, skólayfirvöld, barnaverndarnefndir eða aðrir. „Við viljum ekki að þetta líðist innan hreyfingarinnar og í samfélagi okkar. Við viljum skapa okkar iðkendum, félagsmönnum og starfsmönnum öruggan vettvang bæði til að iðka sínar íþróttir og starfa við þær.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert