Viðvörun vegna rigningar

Vindaspáin á landinu klukkan fjögur í dag.
Vindaspáin á landinu klukkan fjögur í dag. Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér viðvörðun vegna mikillar rigningar sunnan- og suðaustanlands með hlýindum fram á kvöldið.

Varað er við vexti í ám, sérstaklega í Lóni og Álftafirði. Samfara aukinni úrkomu og afrennsli geta líkur á skriðuföllum aukist, samkvæmt veðurspánni.

Á Austfjörðum og Suð-Austurlandi er viðvörunin appelsínugul en á Austurlandi að Glettingi er viðvörunin gul.

Ef litið er yfir veðurhorfur á landinu er spáð sunnan 18 til 13 metrum á sekúndu austanlands en annars 10 til 18 metrum á sekúndu, hvassast norðvestantil.

Mikil rigning verður á Suð-Austurlandi og Austfjörðum en allvíða skúrir annars staðar. Hiti verður á bilinu 4 til 9 stig. Hægari vindur verður með kvöldinu og kólnar en styttir upp eftir miðnætti.

Á morgun verður suðvestan- og sunnanátt með 10 til 18 metrum á sekúndu og éljum eða skúrum. Léttskýjað verður norðaustanlands.

Rigning eða slydda verður á sunnanverðu landinu annað kvöld en snjókoma í uppsveitum. Hiti verður frá 0 til 5 stigum.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert