Ofbeldi líðist ekki innan UMFÍ

Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) ætlar að leggja sitt af mörkum í …
Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) ætlar að leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn hvers kyns ofbeldi innan ungmennafélagshreyfingarinnar.

Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) ætlar að bregðast við og leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn hvers kyns ofbeldi innan ungmennafélagshreyfingarinnar. Stjórnendur UMFÍ samþykktu ályktun þessa efnis á sambandsráðsfundi í gær og kemur ályktunin í kjölfar #metoo-frásagna íþróttakvenna í vikunni.

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, skoraði í ræðu sinni á sambandsráðsfundinum á alla formenn að fyrirbyggja ofbeldi og áreitni innan félaga sinna og hvatti ungmennafélaga til að leita til þjónustumiðstöðvar UMFÍ eftir aðstoð og ráðgjöf að því er segir í fréttatilkynningu frá UMFÍ.

Samþykktin nær til rúmlega 340 félaga innan UMFÍ um allt land og rúmlega 160 þúsund félagsmanna þeirra. Sambandsaðilar UMFÍ eru héraðs- og ungmennasambönd ásamt félögum með beina aðild.

Á meðal sambandsaðila UMFÍ eru Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA) þar sem Höttur, Leiknir og Þróttur eru dæmi um aðildarfélög; Héraðssambandið Skarphéðinn (HSK) með rúmlega 50 aðildarfélög, þar á meðal Ungmennafélag Selfoss og Hamar í Hveragerði. Innan höfuðborgarsvæðisins er Ungmennasamband Kjalarnesþings (UMSK) og eru aðildarfélög þess Afturelding í Mosfellsbæ, Breiðablik og HK í Kópavogi, Grótta á Seltjarnarnesi og Stjarnan í Garðabæ. Þá á eftir að nefna Ungmennasamband Skagafjarðar (UMSS) en þar eru á meðal aðildarfélaga Tindastóll og Neisti. Fjölnir í Grafarvogi, Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag og ungmennafélögin í Njarðvík og Grindavík eru svo dæmi um félög með beina aðild að UMFÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert