Framlög Íslands náðu til milljóna barna

Framlög frá íslenska ríkinu árið 2016 voru meðal annars nýtt …
Framlög frá íslenska ríkinu árið 2016 voru meðal annars nýtt til að tryggja börnum í Jemen áframhaldandi skólagöngu. Ljósmynd/UNICEF

Framlög frá utanríkisráðuneytinu til UNICEF árið 2016 náðu til milljóna barna. Ráðuneytið hefur nú birt upplýsingar um hvernig fjárframlögum ráðuneytisins til barna í neyð var varið árið 2016.

Framlögin eru hluti af samstarfi UNICEF og utanríkisráðuneytisins og eru mikilvægur liður í þróunarsamvinnu Íslands. Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að íslensk stjórnvöld hafa veitt framlög til UNICEF alþjóðlega um árabil. Mikilvægur hluti framlaganna frá íslenska ríkinu til UNICEF á heimsvísu eru svokölluð kjarnaframlög sem ekki eru eyrnamerkt ákveðnum verkefnum. Árið 2016 studdi íslenska ríkið UNICEF alþjóðlega með kjarnaframlagi upp á tæplega milljón Bandaríkjadala, og þökk sé þeim stuðningi náði UNICEF að sinna neyðaraðgerðum á svæðum sem náðu til milljóna barna.

„Framlög frá Íslandi gegna ómissandi hlutverki í að vernda og bæta líf barna um allan heim, óháð því hvort þörf þeirra hafi vakið athygli alþjóðasamfélagsins. Þökk sé slíkum stuðningi getur UNICEF barist fyrir réttindum allra barna á heimsvísu og stuðlað að varanlegum umbótum í heiminum,“ er haft eftir Bergsteini Jónssyni, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi, í tilkynningunni.

Framlög frá íslenska ríkinu voru einnig nýtt til að bólusetja …
Framlög frá íslenska ríkinu voru einnig nýtt til að bólusetja börn í Nígeríu gegn mænusótt. Ljósmynd/UNICEF

Framlögin nýtt m.a. í Jemen, Nígeríu og Eþíópíu

Framlögin frá Íslandi árið 2016 nýttust til að mynda í að bólusetja börn í Nígeríu gegn mænusótt, koma börnum í skóla í Eþíópíu og bregðast við gífurlegri neyð barna í Jemen. Rétt fyrir áramót ákvað ráðuneytið síðan að styrkja neyðaraðgerðir UNICEF í Jemen sérstaklega um 30 milljónir.

Í Jemen var 1,7 milljónum barna hjálpað að halda áfram námi, meðal annars í bráðabirgðaskólum sem settir voru upp eftir að skólarnir þeirra voru gjöreyðilagðir í átökum. Auk þess tryggði UNICEF 165.000 manns aðgengi að hreinu drykkjarvatni í borginni Dhamar með því að setja upp vatnsdælur og útvegaði 10.200 manns í borginni Sanaa hreint vatn og hreinlætisvörur.

Eftir mikla þurrka ásamt miklum flóðum í Eþíópíu voru mörg börn í mjög viðkvæmri stöðu. UNICEF og samstarfsaðilar brugðust við neyðarástandinu og þökk sé framlögum m.a. frá Íslandi náðist að tryggja 153.600 manns hreint drykkjarvatn og hreinlætisaðstöðu, 1,6 milljónir grunnskólabarna byrjuðu aftur í skóla og 9,3 milljónir barna um allt landið fengu næringarþjónustu.  

Skortur á uppskeru, hækkandi matvælaverð og stórfelldur fólksflótti vegna árása vígahreyfingarinnar Boko Haram skapaði algjört neyðarástand í Nígeríu á árinu, og mikill fjöldi barna var í lífshættu sökum vannæringar og smitsjúkdóma. Óeyrnamerkt framlög skiptu sköpum í að ná til barna sem þurftu nauðsynlega hjálp. Meðal annars voru 56 milljónir barna bólusett gegn mænusótt og 25 milljónir barna fengu alhliða heilsu- og næringarþjónustu.

„Þessi stuðningur er ómetanlegur og gerir UNICEF kleift að vera til staðar fyrir börn og gæta að velferð þeirra um allan heim,“ segir í tilkynningu frá UNICEF.

Í Eþíópíu sinnir UNICEF meðal annars næringarþjónustu.
Í Eþíópíu sinnir UNICEF meðal annars næringarþjónustu. Ljósmynd/UNICEF
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert