Funda vegna jarðvegsgerla á morgun

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík. mbl.is/Hanna

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, telur að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi fylgt öllum verklagsreglum vegna jarðvegsgerla sem greinst hafa í neysluvatni í nokkrum hverfum borgarinnar.

„Heilbrigðiseftirlitið var þarna að bregðast við mælingum og fara þar að ýtrustu gát, samkvæmt reglugerð. Það er ekki betur séð en að því hafi verið fylgt,“ segir Dagur í samtali við mbl.is.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og Veitur sendu frá sér tilkynningu í dag þar sem kom fram að fjölg­un jarðvegs­gerla hef­ur mælst í kalda vatn­inu í Reykja­vík. Tvö sýni sem Heil­brigðis­eft­ir­lit Reykja­vík­ur tók 12. janú­ar stóðust ekki viðmið í reglu­gerð.

Frétt mbl.is: Jarðvegsgerlar í neysluvatni í Reykjavík

Á morgun munu fulltrúar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur funda með sóttvarnalækni og Matvælastofnun. „Þar verður farið yfir stöðuna og lagðar línur varðandi næstu skref,“ segir Dagur.

Hann vísar einnig í orð Árnýjar Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sem sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að engin hætta væri á ferðum.

Frétt mbl.is: Engin hætta á ferðum

„Þetta snýst ekki um að Heilbrigðiseftirlitið telji hættu vera á ferðum, heldur er þetta varúðarráðstöfun og mikilvægt að fólk hafi það í huga og ég held að það sé skynsamlegt að fara eftir þeim leiðbeiningum sem Heilbrigðiseftirlitið gefur varðandi þá sem eru veikir fyrir eða viðkvæmir á einhvern hátt,“ segir Dagur.

Landspítalinn hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að spít­al­an­um hafi ekki verið gert viðvart um málið held­ur hafi stjórn­end­ur frétt af því, eins og aðrir lands­menn, í frétt­um. Dagur segist ekki þekkja til málsins nákvæmlega, en að hann telji að Heilbrigðiseftirlitið hafi viljað komað upplýsingunum til allra á sama tíma.

Frétt mbl.is: Neysluvatn soðið á Landspítalanum

„Við förum betur yfir þetta á morgun. En lærdómur umræðunnar í sumar var nú sá að upplýsa heldur meira heldur en minna. Mér sýnist að það hafi verið gert í þessu tilviki,“ segir hann, og vísar þannig til skólpmengunar við Faxaskjól sem kom upp í sumar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert