Konur stýra atvinnuveganefnd í fyrsta sinn

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, er formaður atvinnuveganefndar.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, er formaður atvinnuveganefndar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Fyrsti fundur atvinnuveganefndar Alþingis eftir jólaleyfi fer fram á morgun, miðvikudag. Þrjár konur stýra störfum nefndarinnar og er það í fyrsta skipti frá stofnun nefndarinnar árið 2011 sem svo er. Þá hafa konur heldur ekki veitt fyrirrennurum nefndarinnar forystu.

Lilja Rafney Magnúsdóttir er formaður nefndarinnar, Inga Sæland er fyrsti varaformaður og Halla Signý Kristjánsdóttir annar varaformaður.

Nefndin varð til eftir breytingar á þingskapalögum árið 2011 sem leiddu til þess að fastanefndum þingsins var fækkað úr 12 í 8. Atvinnuveganefnd fjallar um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, iðnaðar- og orkumál, nýsköpun og tækniþróun og hvaðeina sem viðkemur atvinnumálum almennt og nýtingu auðlinda.

Það er því vel við hæfi að á fyrsta fundi nefndarinnar á þessu ári kynna fulltrúar Félags kvenna í atvinnurekstri starfsemi félagsins fyrir fulltrúum í atvinnuveganefnd. Einnig fer fram umræða um veiðigjöld á fundinum með þátttöku Landssambands smábátaeigenda og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert